Innlent

Hefur veitt um þriðjungi meira í framkvæmdir við Hverahlíðarvirkjun

Erla Hlynsdóttir skrifar
Orkuveita Reykjavíkur hefur veitt um þriðjungi meira í framkvæmdir við Hverahlíðarvirkjun en áður var talið. Fulltrúi Vinstri grænna í stjórn segir nýja matið vekja upp spurningar um hvort verið sé að reyna finna röksemdir fyrir áframhaldandi virkjanaframkvæmdum.

Hingað til hefur verið talað um að Orkuveitan hafi lagt 4,4 milljarða í virkjunina. Samkvæmt ársreikningi Orkuveitunnar, sem kynntur var á stjórnarfundi fyrr í þessum mánuði, er mat á framkvæmdunum orðið 6 milljarðar.

Sóley Tómasdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, óskaði þá eftir skýringum á því að þessi upphæð hefur hækkað um ríflega hálfan annan milljarð.

„Eins og fjármögnunnin var kynnt fyrir okkur í febrúar á þessu ári þá var sagt að við hefðum sett 4, 3 milljarða í verkefnið. Ég svo sem veit ekki hvað er rétt og rangt í því. Það getur vel verið að sú upphæð hafi verið röng þegar hún var kynnt fyrir okkur en hún var engu að síður notuð," segir Sóley.

Fréttastofa óskaði ennfremur eftir skýringum frá Orkuveitunni. Þar kemur fram að sú tala sem hefur verið í umræðunni sé byggt á mati frá september 2009. Borun við virkjunina fram til áramóta það sama ár, ásamt endurmati, hafi síðan fært virkjunina til bókar á 4,9 milljarða í árslok 2009.

Sá tæpi milljarður sem bæst hefur við síðan felst aðallega í innágreiðslu á vélabúnað á árinu 2010, 600 milljónir, og borkostnaður upp á 370 milljónir, að því er kemur fram í svari Orkuveitunnar. Að hluta til hafi þetta verið leiðrétting frá fyrra ári.

Sóley reiknar með að fá svar við sinni fyrirspurn á næsta stjórnarfundi og vill ekki tjá sig um þau svör sem fréttastofa fékk þar sem hún hefur ekki séð útreikningana á bak við þau.

„Mér finnst ansi bratt hvernig er verið er að verðleggja það sem þarna er, og hef óskað eftir skýringum á því, vegna þess að þetta vekur upp spurningar um það hvort verið er að leita rökstuðnings í þessum upphæðum framgangi verkefnisins áfram," segir Sóley svo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×