Innlent

Leggja til að skipulögð glæpastarfsemi verði bönnuð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar.
Þingflokkur Framsóknarflokksins lagði í dag fram þingsályktunartillögu þess efnis að innanríkisráðherra verði falið að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum sem banna að á Íslandi starfi brotahópar sem stundi starfsemi sem fellur undir alþjóðlegar skilgreiningar um skipulagða glæpastarfsemi.

Í greinargerð með tillögunni segir að síðustu ár hafi hópar sem standa fyrir skipulagðri glæpastarfsemi fest rætur á Íslandi. Greiningar sem unnar hafi verið hafi ítrekað bent á þá ógn sem felast í starfsemi skipulagðra glæpahópa, svo sem vélhjólagengja. Einnig hefur komið fram að lögregluyfirvöld annars staðar á Norðurlöndum sem og stjórnmálamenn hafi hvatt Íslendinga til að bregðast af hörku við þessari ógn.

Þá segja flutningsmenn tillögunnar að undanfarið hafi ýmsir aðilar viljað skoða bann við starfsemi skipulagðra glæpahópa. Nefna má Rögnu Árnadóttur, fyrrum dómsmálaráðherra, í þessu sambandi, lögregluyfirvöld og nokkra þingmenn. Að mati flutningsmanna eru æ fleiri að átta sig á alvöru málsins og hafa því líkur á því aukist að samfélagið vilji grípa inn í þá óheillaþróun sem hér hefur orðið. Að mati flutningsmanna er brýnt að Alþingi taki afstöðu til málsins hið fyrsta svo ekki verði flotið sofandi að feigðarósi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×