Innlent

Jónsson og Le´macks, Ennemm og Fíton hlutu flest verðlaun

Vinningshafar.
Vinningshafar.
Auglýsingastofurnar Jónsson og Le´macks, Ennemm og Fíton hlutu flest verðlaun eða þrjá lúðra hver stofa, en í kvöld fór fram hin árlega afhending íslensku auglýsingaverðlaunanna, Lúðurinn.

Næstar komu auglýsingastofurnar Hvíta húsið, Íslenska og E&Co með tvenn verðlaun hver. H:N markaðssamkipti og Saga Events hlutu einn lúður hvor.

Lúðurinn er veittur í 16 flokkum þar sem auglýsingar sem skara fram úr á árinu 2011 eru verðlaunaðar. Það sem ræður úrslitum er hversu frumleg, snjöll og skapandi hugmyndin er og svo hversu vel hún er útfærð.

Fyrir bestu auglýsingaherferðina sem eru jafnframt eftirsóttustu verðlaunin hlaut Ennemm fyrir herferðina „Meira Ísland" sem unnin var fyrir Símann. Í herferðinni var Villi naglbítur á ferð og flugi um landið þar sem hann kom með hnyttnar staðreyndir um helstu staðarhætti.

H:N Markaðssamskipti hlaut Áruna, verðlaun sem veitt eru fyrir framúrskarandi árangur auglýsingaherferðarinnar „Gott kaffi fær fólk til að tala" sem var unnið fyrir Innnes. Í herferðinni mátti sjá Erp Eyvindarson og Ragga Bjarna spjalla yfir kaffibolla.

Þá hlaut Saga Events lúðurinn fyrir besta viðburðinn, sem var unnið í samstarfi við Fíton, fyrir íslenska skálann „Heiðursgestur" á bókamessunni í Frankfurt en skálinn hlaut mikla athygli í þýskum fjölmiðlum og mikill fjöldi gesta heimsótti skálann. Die Welt sagði að skálinn væri griðarstaður í erli bókasýningarinnar en þar mátti sjá myndbönd af 25 Íslendingum á einkabókasöfnum sínum við lestur uppáhaldsbóka sinna.

Þrír lúðrar voru veittir fyrir stafrænar auglýsingar sem er í fyrsta skipti í sögu Lúðursins. Enemm fékk verðlaun fyrir bestu vefauglýsinguna og bestu stafrænu auglýsinguna í samfélagsmiðlum fyrir „Meira Ísland" sem unnið var fyrir Símann. Jónsson og Le´macks hlaut síðasta lúðurinn í stafræna flokknum, hreyfimyndir fyrir ,,Moogies" fyrir fyrirtækið Plain Vanilla.

Fíton átti bestu auglýsinguna í flokknum almannaheillaauglýsingar fyrir aðra miðla. Auglýsingin var gerð fyrir VR en yfirskrift hennar var „2500 borðar sem tákn um atvinnulausa VR félaga" en borðarnir voru hengdir upp á Kringlumýrabrautinni og vöktu mikla athygli vegfarenda. Að auki hlaut Hvíta húsið verðlaun í flokknum almannaheillaauglýsingar ljósvakamiðlar fyrir auglýsinguna „Angels" sem unnin var fyrir Umferðastofu. Tilgangur auglýsingarinnar var að opna augu ökumanna fyrir alvarlegum afleiðingum hraðaksturs. Fyrir besta markpóstinn hlaut E&Co fyrir fallegt tímarit sem unnið var fyrir verslunina Geysi sem kom inn um lúguna hjá höfuðborgarbúum.

Í flokknum ásýnd fyrirtækis eða vörumerkis bar Jónsson & Le´macks sigur úr býtum með ásýnd Kex hostel sem opnaði síðastliðið sumar. En það voru ekki einu verðlaun Jónsson & Le´macks en þeir fengu einnig verðlaun í flokki útvarpsauglýsinga fyrir auglýsinguna „Mamma er æst" sem unnin var fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Íslenska auglýsingastofan hlaut tvenn verðlaun þetta árið. Það var fyrir kvikmynduðu auglýsinguna „Gefðu frí um jólin" fyrir Icelandair en auglýsingin var mikið handverk þar sem brúður léku hlutverk. Einnig vann auglýsingastofan verðlaun í flokknum veggspjöld og skilti fyrir "Við þekkjum tilfinninguna-Uglan" sem unnið var fyrir Cintamani.

Í flokknum prentauglýsingar hlaut Hvíta húsið lúður fyrir „Rjómantík" sem unnið var fyrir Mjólkursamsöluna en þar er skrifað með rjóma á skemmtilegan hátt. Fíton hlaut verðlaun í flokknum umhverfisauglýsingar fyrir „Stoppustuð Orkusölunnar-Upphituð ljósasýning". Biðskýlið Stoppustuð fór ekki framhjá þeim sem óku Hringbrautina en blikkandi ljós blöstu við ökumönnum.

Auglýsingaherferðin sem E&Co vann fyrir verslunina Geysi bar sigur úr býtum í vefkosningunni Val fólksins sem fór fram á mbl.is. Þar gátu landsmenn tekið þátt í valinu á bestu auglýsingaherferðinni og er þetta í hugum margra ein mikilvægustu verðlaunin.

Hér má skoða hvaða auglýsingar voru tilnefndar og hverjar hlutu lúðurinn í hverjum flokki fyrir sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×