Innlent

Ólafur Ragnar með opið hús

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Ragnar býður Íslendingum heim.
Ólafur Ragnar býður Íslendingum heim.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ætlar að bjóða almenningi að heimsækja Bessastaði milli klukkan fjögur og átta í dag. Gestum býðst að skoða bæði Bessastaðastofu og Bessastaðakirkju.

Þetta er gert í tilefni af því að nú fer fram Safnanótt 2012. Auk þess að skoða hin merku hús frá 18. öld geta gestir virt fyrir sér fjölbreytt sýnishorn gjafa, sem forseta og þjóðinni hafa borist, og merkar fornleifar sem veita innsýn í sögu búsetu og starfsemi á Bessastöðum frá landnámstíð. Packard bíll forsetaembættisins mun jafnframt standa í hlaði.

Sérfræðingar verða til leiðsagnar auk þess sem nýnemar í fornleifafræði við Háskóla Íslands munu aðstoða starfsfólk við að taka á móti gestum. Séra Hans Guðberg Alfreðsson prestur í Garðaprestakalli verður í Bessastaðakirkju og segir frá kirkjunni sem er meðal elstu steinhúsa landsins. Dr. Halldór Björn Runólfsson safnstjóri Listasafns Íslands segir frá þeim fjölmörgu málverkum sem prýða veggi forsetasetursins. Halldóra Pálsdóttir, sem var starfsmaður forsetaembættisins í áratugi, allt frá tíð Ásgeirs Ásgeirssonar forseta, tekur á móti gestum á lofti Bessastaðastofu og segir frá þeim fjölmörgu gripum sem þar má sjá, sýnishornum gjafa til forseta og þjóðarinnar undanfarna áratugi. Þá mun Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur og fagstjóri fornleifa hjá Þjóðminjasafni Íslands segja frá fornleifauppgreftinum á Bessastöðum og leiðsegja gestum um fornleifakjallarann undir Bessastaðastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×