Innlent

Fréttaskýring: Ármann valdamestur sjálfstæðismanna

Magnús Halldórsson skrifar
Ármann Kr. Ólafsson, verðandi bæjarstjóri í Kópavogi, sést hér við hlið Rannveigar Ásgeirsdóttur þegar nýr meirihluti í Kópavogi var kynntur fyrr í vikunni. Mynd/VILHELM
Ármann Kr. Ólafsson, verðandi bæjarstjóri í Kópavogi, sést hér við hlið Rannveigar Ásgeirsdóttur þegar nýr meirihluti í Kópavogi var kynntur fyrr í vikunni. Mynd/VILHELM
Á þriðjudaginn 14. febrúar mun Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna í Kópavogi, verða formlega bæjarstjóri í sveitarfélaginu, sem er hið næst stærsta á landinu á eftir Reykjavík með 30.779 íbúa samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Ármann verður með þessu valdamesti kjörni fulltrúi Sjálfstæðisflokksins á landsvísu, þegar mið er tekið af fjölda íbúa sveitarfélaga þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er við stýrið og þeirri staðreynd að flokkurinn er ekki við stjórnartaumana í landsmálunum.

Misstu völdin

Eftir þingkosningarnar 2009 og sveitarstjórnarkosningarnar 2010 missti flokkurinn völdin víða. Svo dæmi séu nefnd, þá missti flokkurinn ítökin í Kópavogi, Besti flokkurinn náði Reykjavíkurborg með ævintýralegum kosningasigri og á Akureyri missti Sjálfstæðisflokkurinn völdin eftir mikinn ósigur í kosningum, fékk aðeins einn bæjarfulltrúa af ellefu í bæjarstjórn.

Í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn er í stjórnarandstöðu á Alþingi, með ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna við stýrið, eru helstu pólitísku ítök Sjálfstæðisflokksins nú í sveitarstjórnum. Þar er fyrrnefnd staða í Kópavogi sem Ármann mun gegna, sú valdamesta þegar mið er tekið af íbúafjölda.

Árni næstur

Þegar horft er til þeirra næstu fjögurra embætta sem á eftir Ármanni koma er það Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, þar sem íbúar eru tæplega 14 þúsund, sem er næstur í röðinni. Þar eru sjálfstæðismenn með hreinan meirihluta, sjö bæjarfulltrúa af ellefu.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, þar sem flokkurinn er með fimm bæjarfulltrúa af sjö, er einnig meðal valdamestu manna flokksins að teknu tilliti til íbúafjölda í sveitarfélaginu. Gunnar er reyndar ekki einn af kjörnum bæjarfulltrúum, en hann gegnir þó stöðu sinni í umboði þess trausta meirihluta sem flokkurinn hefur í bænum, þar sem íbúar eru tæplega 11 þúsund.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ og oddviti Sjálfstæðisflokksins í bænum, kemur þar á eftir en íbúar í bænum eru ríflega 8.600.

Í Árborg er Sjálfstæðisflokkurinn með hreinan meirihluta, fimm bæjarfulltrú af níu, en íbúar í Árborg voru ríflega 7.800 í lok árs í fyrra. Framkvæmdastjóri sveitarfélagsins var ráðinn undir ópólitískum formerkjum en Ásta Stefánsdóttir gegnir því embætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×