Innlent

Huglausa ljónið féll niður hlera í miðri sýningu

Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri sýningarinnar.
Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri sýningarinnar.
„Samkvæmt öllum myndum og rannsóknum ætti hann að sleppa ótrúlega vel," segir leikarinn og leikstjórinn Bergur Þór Ingólfsson sem leikstýrir leiksýningunni Galdrakarlinn í Oz sem er sýnd í Borgarleikhúsinu.

Bergur Þór var fyrir tilviljun staddur á meðal áhorfenda þegar 48. sýningin var flutt á sviði Borgarleikhússins í gærdag. Um miðja sýningu sá Bergur Þór hinsvegar hvernig huglausa ljónið hljóp inn á sviðið og hvarf svo skyndilega.

Í ljós kom að leikarinn Halldór Gylfason, sem leikur huglausa ljónið, féll niður hlera sem opnaðist fyrir slysni. Fallið var talsvert. Halldór datt niður á lyftu og féll þaðan niður á gólfið.

„Tjaldið var þá strax dregið fyrir og ég hljóp upp á sviðið til þess að athuga með Dóra," segir Bergur sem var jafn brugðið og öðrum í húsinu, enda getur það verið stórhættulegt að falla niður svona hlera.

Bergur kom að Halldóri sem kenndi sér nokkurra eymsla. „Og þetta er svo furðulegt með leikara, það fyrsta sem Dóri sagði var, ferð þú ekki bara í búninginn?"

Kallað var á sjúkrabíl sem keyrði Halldór upp á spítala. Áhorfendur fengu sér sæti á ný og biðu þess í ofvæni að heyra hver örlög ljónsins væru. Bergur var þá enn fyrir neðan sviðið. Hann tók sig til og klæddi sig í búninginn. Svo kastaði hann ljónsmakkanum upp úr hleranum og mikill fögnuður braust út á meðal áhorfenda. Jafnvel léttir.

Bergur fylgdi svo á eftir og útskýrði fyrir áhorfendum hvað hefði gerst og að hann myndi klára sýninguna sem huglausa ljónið.

Það er alveg ljóst að sýningin er mikið sjónarspil og ákaflega tæknileg. Bergur segir að þetta sé fyrsta óhappið á sýningunni, sem hann telur hálfgert afrek. Bergur mun svo líklega leika huglausa ljónið aftur í dag, þegar 49. sýningin fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×