Innlent

Vilja skattaívilnanir fyrir þá sem spara fyrir íbúðarkaupum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Níu þingmenn á Alþingi lögðu fram frumvarp í dag þar sem gert er ráð fyrir sérstökum skattívilnunum til handa þeim sem eru að spara vegna húsnæðisöflunar. Frumvarpið er hugsað til viðbótar öðrum opinberum úrræðum sem auðvelda eiga fólki að eignast húsnæði, til dæmis vaxtabótakerfi og Íbúðalánasjóði.

Í frumvarpinu er lagt til að reglubundinn sparnaður til húsnæðisöflunar sem fólk stofnar til fyrir 34 ára aldur í formi samningsbundinna innlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum veiti reikningseiganda skattafslátt innan vissra marka. Sparnaðurinn þarf að lágmarki að vera bundinn í tvö ár og viðkomandi sýna með óyggjandi hætti fram á öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota, þar með taliö búseturéttar, eða að hafin sé bygging eða verulegar endurbætur slíks húsnæðis. Í greinargerð með frumvarpinu segir að svipað átak hafi verið gert með lögum árið 1985 um húsnæðissparnaðarreikninga. Þau séu núna úr gildi fallin.

Það er Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sem er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en ásamt henni standa að frumvarpinu þingmennirnir Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason, Siv Friðleifsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Ólína Þorvarðardóttir, Skúli Helgason, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lúðvík Geirsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Auður Lilja Erlingsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×