Fótbolti

Drogba með tvö mörk þegar Fílbeinsströndin komst í undanúrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba fagnar í kvöld.
Didier Drogba fagnar í kvöld. Mynd/AP
Sambía og Fílabeinsströndin komust í dag í undanúrslitin á Afríkukeppninni í fótbolta. Sambía vann 3-0 sigur á Súdan og Fílabeinsströndin vann 3-0 sigur á Miðbaugs-Gíneu.

Didier Drogba, leikmaður Chelsea, skoraði tvö mörk og klikkaði á einu víti að auki þegar Fílabeinsströndin vann 3-0 sigur á heimamönnum í Miðbaugs-Gíneu. Drogba lét verja frá sér víti á 29. mínútu en bætti fyrir það með því að koma sínum mönnum í 1-0 sjö mínútum síðar.

Drogba bætti síðan við öðru marki með skalla á 69. mínútu eftir sendingu frá Yaya Touré, leikmanni Manchester City. Yaya Touré skoraði síðan sjálfur þriðja markið beint úr aukaspyrnu á 81. mínútu.

Stophira Sunzu, Chris Katongo og James Chamanga skoruðu mörk Sambíumanna í sigrinum á Súdan en Katongo skoraði sitt mark þegar hann fylgdi á eftir þegar hann klikkaði sjálfur á vítaspyrnu.

Á morgun fara fram hinir leikirnir í átta liða úrslitunum en þá mætast Gana og Túnis annarsvegar og Gabon og Malí hinsvegar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×