Innlent

LV hafnar ásökunum rannsóknarnefndar

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hafnar því að hann hafi brotið lög með gerð gjaldmiðlavarnarsamninga.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna hafnar því að hann hafi brotið lög með gerð gjaldmiðlavarnarsamninga.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna hafnar því að hann hafi brotið lög með gerð gjaldmiðlavarnarsamninga en í skýrslu rannsóknarnefndar lífeyrissjóðanna er slíkt gefið í skyn þar sem segir að sjóðurinn hafi með kaupum á gjaldeyristryggingum árið 2008 aukið áhættu sjóðsins - þvert á lögbundið hlutverk sitt.

Þetta kom fram í hádegisfréttum okkar í gær. Vegna þeirrar fréttar sendi sjóðurinn frá sér yfirlýsingu þar sem þessu er vísað á bug.

Heimild sé fyrir fyrir slíkum afleiðusamningum í lífeyrissjóðalögum. Umræddir samningar séu í eðli sínu hugsaðir til langs tíma, í þágu hagsmuna sjóðfélaga og byggi ekki á væntingum um skjótfenginn gróða.

Kjarninn í gagnrýni rannsóknarskýrslunnar á þetta atriði snerist einmitt um að verið væri að hafa skammtímagróða að leiðarljósi. Þá tekur Lífeyrissjóðurinn fram í yfirlýsingu sinni að Fjármálaeftirlitinu hafi frá upphafi verið gerð grein fyrir stöðu þessara samninga og það hafi aldrei gert athugasemdir við þá.

Þess má geta að rannsóknarnefndin átaldi veikt eftirlit Fjármálaeftirlitsins á fundi sínum á föstudaginn, formaður nefndarinnar, sagði raunar að það hefði verið máttlaust. Lífeyrissjóðurinn bendir á að rúmur þriðjungur af eignum sjóðsins hafi verið erlend verðbréf og leitast hafi verið við að takmarka áhættu af sveiflum gjaldmiðlagengis með áðurnefndum gjaldmiðlavarnarsamningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×