Innlent

Hugsanlegt að björgunarsveitir taki gjald fyrir aðstoð í ófærð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólína segir eðlilegt að björgunarsveitirnar hugsi hvort taka beri gjald fyrir aðstoð sem veitt er þegar bílar festast.
Ólína segir eðlilegt að björgunarsveitirnar hugsi hvort taka beri gjald fyrir aðstoð sem veitt er þegar bílar festast. mynd/ einar eysteinsson.
Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður og björgunarsveitamaður segir að Slysavarnafélagið Landsbjörg verði að fara að íhuga hvort skynsamlegt yrði að taka gjald fyrir þjónustu sem veitt er þegar bílar eru dregnir út úr snjósköflum og ófærum. Fréttablaðið greinir frá því í dag að björgunarsveitir beri ábyrgð á skemmdum sem verða við þessar aðstæður. Sveitirnar þurfi að borga á annað hundrað þúsund krónur fyrir hvern bíl sem skemmist, ákveði eigandi bílsins að sækja rétt sinn til tryggingarfélagsins.

„Ég sé í raun ekkert óeðlilegt við það, ef maður hugsar það skynsamlega, að sá sem dregur annan bíl og er við stjórnina beri ábyrgð á því sem gerist. Þess vegna finnst mér að björgunarsveitirnar megi fara að hugsa það hvort ekki sé ástæða til þess fara að taka gjald fyrir þessa þjónustu," segir Ólína. Hún bætir því við að sér finnist það langt gengið að nýta sér sjálboðaliðastarf björgunarsveitanna í þjónustu af þessu tagi. Slík þjónusta sé ólík þeirri aðstoð sem björgunarsveitirnar veiti þegar fólk lendir í lífsháska eða þegar náttúruhamfarir verða.

„Þetta hefur meira að segja gengið svo langt að sveitirnar hafa verið að taka bíla út úr innkeyrslum, eins og fréttir bárust af þegar síðast var ófærð í Reykjavík," segir Ólína. Þetta sé því umhugsunarefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×