Innlent

Eðlilegt að Ríkisútvarpið ræði ástandið í Bakú

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir segir eðlilegt að umræða um mannréttindabrot séu tekin upp á vettvangi þeirra samtaka sem halda Eurovision.
Katrín Jakobsdóttir segir eðlilegt að umræða um mannréttindabrot séu tekin upp á vettvangi þeirra samtaka sem halda Eurovision.
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir eðlilegt að Ríkisútvarpið og önnur félög innan samtakanna EBU, sem heldur Eurovision söngkeppnina, taki umræðu um mannréttindabrot sem kunna að vera framin í löndum sem eiga aðild að keppninni. Þetta segir hún aðspurð út í viðbrögð sín við skrifum Páls Óskars Hjálmtýssonar um Eurovision.

Páll Óskar sagði á fésbókinni í gær að hann teldi að Ísland ætti ekki að taka þátt í Eurovision í ár. Ástæðan væri fréttir af því að fólk í Bakú, höfuðborg Aserbaídsjan þar sem keppnin er haldin, væri hrakið burt af heimilum sínum til að rýma fyrir byggingu tónlistarhallar, þar sem halda á keppnina. Hann sagðist hafa rætt málið við Pál Magnússon útvarpsstjóra.

„Ég ætla ekki að hafa skoðun á því hvort Ísland eigi að vera með eða ekki," segir Katrín og bendir á að Ríkisútvarpið sé sjálfstæð stofnun. Hins vegar sé eðlilegt að RÚV beiti sér innan þessara samtaka fyrir því að öllum skilyrðum fyrir keppninni sé fylgt. Eðlilegt sé að umræða um þessi mál sé tekin upp á vettvangi þeirra samtaka sem halda keppnina.

Vísir hefur ítrekað reynt að ná tali af Páli Magnússyni útvarpsstjóra í dag, en hann hefur verið upptekinn við fundarhöld það sem af er degi.


Tengdar fréttir

Páll Óskar vill að Ísland taki ekki þátt í Eurovision

"Ég hef nú þegar hvatt Pál Magnússon til að afþakka þátttöku Íslands í Eurovision í Bakú. Ég vona að hann geri það og taki þessari áskorun minni. Listamaðurinn sem vinnur keppnina á laugardaginn getur líka afþakkað ferðina sjálfur ef hann vill," segir Páll Óskar Hjálmtýsson söngvari á Facebook-síðu sinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×