Innlent

Vilhjálmur vill Vaðlaheiðargöng í gang

Vilhjálmur Egilsson.
Vilhjálmur Egilsson.
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir óskandi að Alþingi finni flöt á því að koma framkvæmd Vaðlaheiðarganga af stað. Hann segir afar litla áhættu fyrir ríkissjóð í málinu miðað við það sem hann kallar samfélagslega þýðingu ganganna.

„Samtökin hafa hvatt mjög til þess að ráðist verði í gerð Vaðlaheiðarganga þannig að notendur greiddu sérstakt gjald fyrir notkun á göngunum sem stæði undir kostnaðinum við gerð þeirra," segir Vilhjálmur meðal annars í pistli á vef Samtaka atvinnulífsins. Hann segir ennfremur að umræðan og andstaðan við komist aldrei að kjarna málsins sem sé sá að það sé verkefni ríkisins að annast samgönguframkvæmdir, Vaðlaheiðargöng sem aðrar framkvæmdir.

„Um leið og notendurnir þurfa að greiða fyrir notkun ganganna breytast allar arðsemisforsendur ríkisins. Það liggur fyrir að göngin munu á einhverjum tíma renna til ríkisins. Endurgjaldslaust ef notendurnir hafa greitt allan kostnaðinn. En takist ekki að ná öllum kostnaðinum til baka með notendagjöldum verður raunverulegur fjárfestingarkostnaður ríkisins hverfandi í hlutfalli af heildarkostnaði við framkvæmdina."

„Það þarf að taka ákvörðun miðað við að kostnaður ríkisins við göngin verði ýmist enginn eða hverfandi þegar væntanleg arðsemi af göngunum er metin. Ekki leikur nokkur vafi á því að göngin munu reynast ríkinu arðsöm. Það á ekki að taka kostnað notendanna inn í arðsemisreikninginn fyrir ríkið, sérstaklega ekki í þessu tilfelli, þar sem notendum er í sjálfsvald sett hvort þeir fara göngin eða upplifa hina fögru leið um Víkurskarð. Þá ber til þess að líta að almennur stuðningur er við göngin í nágrenni ganganna, þ.e. í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Almenn ósk er um það á þessu svæði að fá að greiða sérstaklega fyrir göngin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×