Sport

Táningurinn Tomic slær í gegn á heimavelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bernard Tomic á vellinum í morgun.
Bernard Tomic á vellinum í morgun. Nordic Photos / Getty Images
Bernard Tomic, nítján ára Ástrali, er kominn áfram í 16-manna úrslit á Opna ástralska meistaramótinu í tennis.

Helmingur viðureignanna í 32-liða úrslitum í karlaflokki er nú lokið og áttu þeir bestu heims ekki í vandræðum með sína andstæðinga. Roger Federer vann Króatann Ivo Karlovic í þremur settum og Rafael Nadal gerði slíkt hið sama gegn Lukas Lacko frá Slóvakíu.

Federer mætir Tomic í 16-manna úrslitunum en sá síðarnefndi er eðililega í miklu uppáhaldi hjá heimamönnum. Hann og gamla kempan Lleyton Hewitt eru nú einu Ástralarnir sem eru enn með í keppninni en allar áströlsku konurnar eru úr leik.

Tomic hafði betur gegn Úkraínumanninum Alexandr Dolgopolov í hörkuspennandi viðureign, 4-6, 7-6, 7-6, 2-6 og 6-3, en sá síðarnefndi var raðað inn sem þrettánda sterkasta keppenda mótsins. Tomic er hins vegar í 38. sæti heimslistans en hann komst þó alla leið í fjórðungsúrslit á Wimbledon-mótinu í fyrra.

32-manna úrslitunum lýkur bæði í karla- og kvennaflokki á morgun en hjá konunum var lítið um óvænt úrslit í nótt og í morgun. Caroline Wozniacki frá Danmörku komst auðveldlega áfram en hún er í efsta sæti heimslistans. Hið sama gerði Kim Clijsters frá Belgíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×