Innlent

Skrif Hallgríms ollu þungu áfalli

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðrún Jónsdóttir gagnrýnir Hallgrím Helgason harðlega.
Guðrún Jónsdóttir gagnrýnir Hallgrím Helgason harðlega.
Dóttir Brynhildar Georgíu Björnsson, sem Hallgrímur Helgason byggir aðalpersónuna í nýjustu skáldsögu sinni á, segist hafa orðið fyrir þungu áfalli þegar hún las bókina í september á síðasta ári. Brynhildur var barnabarn Sveins Björnssonar, fyrsta forseta íslenska lýðveldisins, en hún mun hafa sagt Hallgrími sögur af sér og fjölskyldu sinni áður en hún lést árið 2008. Í bókinni, sem ber titilinn Konan við 1000° byggir Hallgrímur söguna að einhverju leyti á frásögnum hennar en skáldar jafnframt í eyðurnar.

„Textinn leiddist yfir í meiri ljótleika en ég hafði nokkurn tíma gert mér grein fyrir, uppáferðir, nauðganir og klám tóku yfir og þannig hélst sagan út bókina," segir Guðrún Jónsdóttir, dóttir Brynhildar, í aðsendri grein í Fréttablaðinu og hér á Vísi í dag. Hún segist hafa átt andvökunótt eftir að hafa lokið við lesturinn og skrifað Hallgrími strax og sagt honum að hún gæti ekki búið við þessi skrif. Það hafi verið of seint að breyta þýsku útgáfunni af bókinni, enda væri hún þegar komin í prentun en hann hefði reynt að fást við breytingar á íslensku útgáfunni.

Guðrún segir að í huga sínum sé djúp hryggð yfir að þetta verk Hallgríms skyldi hafa orðið til. Hún spyr hvort bókmenntir séu yfir siðferði og réttlæti hafnar. „Kannski er það svo og við fjölskylda mín vorum bara óheppin að lenda í þessu. En í mínum huga er ekki siðlega rétt að skrifa svona texta og tengja hann við minningu fólks. Jafnvel þó það sé löglegt," segir Guðrún.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×