Innlent

Fjórir fengið ívilnanir - Nubo vill líka

Kristján Már Unnarsson skrifar
Huang Nubo á Grímsstöðum í ágúst sl. Nú vill hann leigja hluta jarðarinnar.
Huang Nubo á Grímsstöðum í ágúst sl. Nú vill hann leigja hluta jarðarinnar.
Iðnaðarráðherra hefur á grundvelli nýlegra laga um ívilnanir þegar veitt fjórum aðilum undanþágur frá lögum vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Kínverjinn Huang Nubo hefur nú sótt um að fá að njóta samskonar ívilnunar til að leigja Grímsstaði og byggja upp lúxushótel. Lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi voru samþykkt frá Alþingi árið 2010 en þau heimila iðnaðarráðherra að veita jafnt innlendum sem erlendum aðilum margvíslegar undanþágur frá lögum í því skyni að stuðla að atvinnuuppbyggingu.

Eftir að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra synjaði Huang Nubo um undanþágu til að kaupa jörðina Grímsstaði á Fjöllum kvaðst Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra ætla að vinna að því eftir öðrum leiðum að tugmilljarða fjárfestingar Nubos í ferðaþjónustu hérlendis gætu orðið að veruleika. Nú hefur Nubo sótt formlega um undanþágu til iðnaðarráðherra á grundvelli þessara laga til að fá hluta Grímsstaða til langtímaleigu og einnig til að byggja lúxushótel bæði á Grímsstöðum og í Reykjavík.

Að sögn Þóris Hrafnssonar, upplýsingafulltrúa iðnaðarráðuneytis, hafa fjórir aðilar þegar fengið ívilnanir á grundvelli laganna en þeir eru aflþynnuverksmiðja Becromal á Akureyri, kísilmálmverksmiðja Thorsil, sem áformuð er á Húsavík með kanadískum fjárfestum, kísilverksmiðja í Helguvík, sem bandarískir fjárfestar standa á bak við, og gagnaver Verne Holding á Keflavíkurflugvelli.

Auk umsóknar Nubos liggja sex aðrar umsóknir um ívilnanir fyrir, samkvæmt upplýsingum iðnaðarráðuneytis, en þær fara allar til umsagar ívilnananefndar sem gerir tillögu til ráðherra um afgreiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×