Innlent

Mikilvægt að kirkjan haldi vel utan um samkynhneigða

Sigríður Guðmarsdóttir ætlar að gefa kost á sér til embættis biskups.
Sigríður Guðmarsdóttir ætlar að gefa kost á sér til embættis biskups.
Séra Sigríður Guðmarsdóttir, sem hefur gefið kost á sér sem næsti biskup Íslands, segist vera umdeild innan Þjóðkirkjunnar. Nái hún kjöri ætlar hún aðeins að sitja í fimm ár.

Sigríður er fyrsti presturinn sem gefur kost á sér eftir að séra Karl Sigurbjörnsson tilkynnti að hann myndi láta af embætti biskups í sumar.

„Það sem rekur mig áfram er að ég tel að það sé þörf á allmiklum breytingum í Þjóðkirkjunni," segir Sigríður í samtali við fréttastofu. Hún segist ætla aðeins að sitja til skamms tíma ef hún nái kjöri. „Vegna þess að ég tel að breytingaskeið þurfi ekki að vera alveg endalaust, heldur ætla ég mér fimm ár í þær breytingar sem þurfa að verða á kirkjunni. Eftir það getur annar tekið við," segir hún.

Þú talar um breytingar innan kirkjunnar, hvernig breytinar þá helst?

„Breytingarnar sem eru kannski víðtækastar eru að hefja aftur sterkt samtal við þjóðina, bæði við þá sem tilheyra þjóðkirkjunni en líka allan almenning. Vegna þess að Þjóðkirkjan er sterkt og mikilvægt afl í samfélaginu. Og það sem mér finnst að þetta samtal eigi að vera um, er um trú og mannréttindi og hvernig það er að lifa í fjölbreyttu samfélagi, þar sem við erum einn hópur meðal annarra - reyndar mjög stór hópur. Svo finnst mér líka mikilvægt að við gerum upp það sem aflaga hefur farið á undanförnum árum. Þá nefni ég sérstaklega að mér finnst mikilvægt að kirkjan haldi vel utan um til dæmis samkynhneigt fólk og utan um þá sem hafa orðið fyrir kynferðisbrotun," segir Sigríður.

Eftir að rannsóknarnefnd kirkjunnar skilaði af sér á síðasta ári þar sem fram kom gagnrýni á aðkomu séra Karls Sigurbjörnssonar að máli séra Ólafs Skúlasonar á sínum tíma, steig Sigríður fram og krafðist afsagnar séra Karls.

„Um leið og maður tekur afstöðu, þá verður maður líka umdeildur," segir hún að lokum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.