Innlent

Mikill fengur í þátttöku Íslands í New York

Íslenski dansflokkurinn mun sýna verkið Kvart eftir norska danshöfundinn Jo Strömgren.
Íslenski dansflokkurinn mun sýna verkið Kvart eftir norska danshöfundinn Jo Strömgren.
Þrjú íslensk verk verða sýnd á kynningu á íslenskum sviðslistum í New York um næstu helgi. Leiklistarsamband Íslands stendur fyrir kynningunni í samstarfi við hin Norðurlöndin.

„Þetta er mjög spennandi tækifæri sem er gaman að geta nýtt í svona ríku og góðu samstarfi við félaga okkar á Norðurlöndunum," segir Ása Richardsdóttir, forseti Leiklistarsambands Íslands (LSÍ), heildarsamtaka sviðslista hér á landi. Sambandið stendur fyrir kynningu á íslenskum sviðslistum í New York um næstu helgi, dagana 7. til 10. janúar.

Í New York verða þrjú íslensk sviðsverk sýnd og íslenskar sviðslistir í heild kynntar á árlegu þingi APAP (Association of Performing Arts Presenters), sem er hið stærsta sinnar tegundar sem kaupendur sviðslistasýninga sækja.

„Von er á um 2.000 þátttakendum á þingið, flestum frá Bandaríkjunum og Kanada, en hin síðari ár eru kaupendur frá Asíu, Suður-Ameríku, Evrópu og víðar farnir að nýta sér þetta þing. Þarna kemur fólk saman og spjallar, sækir námskeið og sýningarviðburði víðs vegar um borgina. Margir líta á þingið sem sinn markað, þarna kaupa meðal annarra leikhúss- og hátíðastjórnendur sýningar fyrir næsta leikár og sumir klára hreinlega skipulagningu heilu leikáranna á þessum fjórum dögum í New York," segir Ása.

Verkefnið markar upphaf norræna samstarfsverkefnisins Nordics On Stage, sem stendur yfir allt árið 2012 og inniheldur meðal annars frekari kynningar á sviðslistum frá Norðurlöndunum í Þýskalandi, Danmörku, Kóreu, Japan og fleiri löndum.

„Í raun höfðu félagar okkar á Norðurlöndunum undirbúið jarðveginn, búið til heildarhugmynd og safnað fé og vildu, í anda norræns systralags, endilega að Ísland yrði með og þótti mikill fengur í því," segir Ása og bætir við að vissulega sé Norður-Ameríkumarkaðurinn risavaxinn.

„Þótt ýmis dæmi séu um að sviðslistamenn frá Norðurlöndunum hafi sótt á þennan markað með góðum árangri er hann að vissu leyti óplægður akur. Við höfum trú á því að þetta norræna kynningarsamstarf skili árangri, að saman séum við sterkari en ella. Þetta er tilraun, en þaulhugsuð tilraun engu að síður."

Fulltrúar Íslands í New York verða Íslenski dansflokkurinn með verkið Kvart eftir norska danshöfundinn Jo Strömgren, sem valið var úr 35 norrænum verkum, Erna Ómarsdóttir, sem sýnir tónleikaverkið Lazyblood, og framandverkaflokkurinn Kviss búmm bang með verkið Safari. Vefsíðan ice-storm-showcase.com hefur verið opnuð utan um verkefnið og eru sýningarnar í New York haldnar í samstarfi við Cinars, umfangs- og reynslumikið kynningarfyrirtæki fyrir kanadískar sviðslistir.

kjartan@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×