Innlent

Kanínan var dauð þegar hún brann

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kanínan var illa útleikin eftir eldinn.
Kanínan var illa útleikin eftir eldinn. mynd/ stefán.
Maður sem kveikti í kanínu og kanínukofa í Garðabæ, segir að kanínan hafi verið dauð þegar að hann kveikti í henni. Þetta er fullyrt á vef lögreglunnar. Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að ungar stúlkur hefðu gengið fram á kanínuna og málið verið tilkynnt til lögreglu við litlar undirtektir.

Lögreglan segir að mjög óljósar upplýsingar hafi legið fyrir um vettvang og tilkynnendur, sem voru börn í þessu tilviki, hafi verið beðnir um frekari upplýsingar að höfðu samráði við foreldra sína. Samkvæmt frásögn lögreglunnar hittu lögreglumenn börnin og forráðamann þeirra þegar málið hafði tekið á sig skýra mynd og var vísað á staðinn þar sem kanínuna var að finna. Á vettvangi hafi einnig verið brunninn kofi, sem ætla megi að kanínan hafi verið í. Bæði henni og kofanum hafi verið fargað. Nokkru síðar hafi maður haft samband við lögreglu og upplýst að hann hefði kveikt í kofanum með kanínuna innanborðs.

„Maðurinn tók hins vegar alveg skýrt fram að hún hefði verið dauð áður en hann bar eld að kofanum og hefði dauða kanínunnar borið að með eðlilegum hætti. Lögreglan telur ekki ástæðu til að rengja frásögn mannsins en hann var mjög miður sín vegna málsins. Maðurinn gat þess ennfremur að hann hefði alltaf ætlað sér að urða bæði kofann og hræið en því verki hefði því miður bara verið rétt ólokið þegar börnin komu að og þótti honum það afar leitt," segir á vef lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×