Innlent

Margir fara flatt í hálkunni

Mikil hálka er nú á götum og gangstéttum borgarinnar og er vegfarendum ráðlagt að fara varlega. Mikill erill var á slysadeild Landspítalans í nótt vegna hálkuslysa og búist við fleirum þegar líður á daginn.

Asahlákan fór ekki framhjá borgarbúum í gær en stórir pollar mynduðust á hálfbráðnuðu íslagi sem safnast hefur saman og myndar stórhættulegt svell, þá hafa hjólför myndast í snjólögum og safnast vatn nú þar saman sem getur falið hálkuna.

Margir skemmtanaglaðir borgarbúar áttu í erfiðleikum í nótt og fluttu sjúkraflutningamenn 35 manns á bráðamóttöku sem höfðu slasað sig í hálkunni eða af skemmtanahaldi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk að minnsta kosti fimm tilkynningar um hálkuslys mis alvarleg og því ljóst að mörgum hefur skrikað fótur á svellinu.

Á slysadeild voru margir af þeim sem slösuðu sig í nótt komnir á bæklunardeild í aðgerð eða frekari aðhlynningu. Vakthafandi læknir á slysadeild segir morguninn hafa verið frekar rólegan en hann býst við fleiri hálkuslysum þegar líður á daginn og fólk fer á stjá. Hann vill hvetja fólk til að fara varlega, sérstaklega þá sem eru komnir yfir miðjan aldur og eiga erfitt með að fóta sig. Hálkan er mjög lúmsk og þarf ekki meira en eitt feilspor til að maður geti endað kylliflatur á götunni.

Vegagerðin varar einnig við hálku eða flughálku um allt land og biður vegfarendur um að fylgjast vel með færð og ástandi vega þar sem það getur breyst á skömmum tíma. Spáð er áframhaldandi rigningu í nótt og því vonandi að íslagið fari að bráðna í burtu og hætta að valda borgarbúum usla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×