Innlent

"Flugið verður fyrir þá ríku“

Einungis þeir efnameiri munu geta nýtt sér flugþjónustu innanlands þar sem opinber gjöld af hverjum flugmiða hafa meira en tvöfaldast á síðustu þremur árum. Þetta segir Framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

Í vikunni voru tilkynntar gífurlegar hækkanir á innanlandsflugi. Til dæmis munu lendingargjöld á Reykjavíkurflugvelli hækka um 72 prósent, farþegagjöld um 71 prósent og flugleiðsögugjald um 22 prósent. Samtals munu þessar hækkanir þýða yfir 100 milljóna kostnaðaraukningu fyrir Flugfélag Íslands á þessu ári. Til stendur að hækka þessi gjöld aftur eftir ár og sér Flugfélagið fram á 150 milljóna hækkun þá.

„Verð hlýtur að verða að hækka og ef þetta heldur sem horfir, að þessar miklu kostnaðarhækkanir sem við erum að fá á okkur fara út í verðlagið, þá erum við ekki lengur að tala um flugið sem almannasamgöngur heldur er það einungis á færi þeirra efnameiri að ferðast með flugi," segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

Tökum dæmi um flugmiða frá Reykjavík til Akureyrar, í dag eru opinber gjöld tæp átta prósent af verði miðans, en eftir þessar hækkanir munu gjöldin fara upp í tæp tíu prósent eða yfir tólfhundruð krónur af verði miðans. Alls hafa opinber gjöld af hverjum flugmiða meira en tvöfaldast á þremur árum. Þetta segir Árni að geti ekki gengið upp og stjórnvöld séu að vega að framtíð innanlandsflugsins.

„Það er verið að setja töluvert mikið af peningum bæði í vegagerð eða hafnarmannvirki á sama tíma og það er verið að skera niður í þessum málaflokki. Mér finnst flugið almennt ekki njóta sammælis miðað við aðra samgöngumáta, því það fæst varla peningur til að viðhalda þeim flugbrautum sem nú þegar eru í mikilli notkun," segir Árni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×