Lífið

Að hugsa út fyrir kassann

Í gegnum allan sinn uppvöxt upplifði Hrafnhildur sig í röngum líkama og bar það leyndarmál ein.
Í gegnum allan sinn uppvöxt upplifði Hrafnhildur sig í röngum líkama og bar það leyndarmál ein.
Ég fór í bíó í vikunni og sá mynd sem snerti við hjartanu í mér. Myndin var einlæg frásögn ungrar konu, Hrafnhildar, sem vildi fá tækifæri til að vera hún sjálf. Ætli það sé ekki markmið okkar flestra en setja mætti spurningamerki við hversu margir raunverulega ná því. Stúlka þessi var fædd í röngum líkama og fæddist því með karlkyns kynfæri og hormón eftir því. Í gegnum allan sinn uppvöxt upplifði hún sig í röngum líkama og bar það leyndarmál ein. Þessi sálar- og líkamsflækja var henni þungur baggi og er manni gersamlega ómögulegt að setja sig í hennar spor og reyna að skilja hversu erfitt þetta hefur verið. Þó snertir einlæg frásögn hennar við manni og gott ef eitt lítið tár fær ekki að trítla niður kinnina. Hún er nefnilega þannig manneskja að mann langar bara að knúsa hana, kjafta um lífið og tilveruna og hvetja til dáða.

Ég upplifi alltof oft að fólk hengi allt sitt trúarlega kerfi á kyn. Þú átt að hegða þér á ákveðinn hátt, hafa ákveðin áhugamál, laðast að gagnstæðu kyni og ekki vera með neitt vesen. Ekki vera frávik, það er svo óþægilegt fyrir kassalagaðan hugsanahátt. Það er stundum líkt og persónuleg breyting, lítil eða stór, storki öðru fólki. Það tekur upplifun annarra persónulega og bregst ókvæða við. Kannski erum við bara hrædd við breytingar og það sem við þekkjum ekki. Þess vegna er þessi mynd mikilvæg. Svo þú getir skilið betur hvað sá sem gengur í gegnum kynleiðréttingu upplifir, svo þú getir séð manneskjuna sem einstakling óháð líffræðilegu kyni. Kyn, kynfæri, staðalímyndir og kynhneigð eiga ekki að vera þættir sem stýra því hvernig okkur þykir einstaklingur vera eða eiga að vera. Við eigum að geta horft lengra og tekið fólki eins og það er, þó það sé ólíkt okkur sjálfum.

Ég hvet þig til að fara í bíó með fólki sem þér þykir vænt um, börnum og eldri borgurum, og fagna því að einstaklingur hafi hugrekki og þor til að vera hin besta útgáfa af sjálfri sér. Þó það sé öðruvísi eða óalgengt eða jafnvel sumum þyki það skrýtið. Kannski verður þetta þér hvatning til að gera eitthvað í þínum málum eða styðja þína nánustu til að vera eins og þeir eru. Fögnum fjölbreytileikanum og fólki sem sigrast á erfiðleikum, um það snýst þetta líf!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.