Innlent

Mannhaf fagnaði áætlunarflugi til Húsavíkur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Um þrjúhundruð manns mættu á Húsavíkurflugvöll nú síðdegis til að fagna fyrsta áætlunarflugi þangað eftir tólf ára hlé. Núverandi og fyrrverandi ráðherrar flugmála, þeir Ögmundur Jónasson og Kristján L. Möller voru meðal farþega í þessu flugi sem forystumenn Þingeyinga vonast til að marki tímamót en þeir mættu með blóm, sem þeir færðu Herði Guðmundssyni og hans fólki hjá Flugfélaginu Erni.

Mannfjöldinn á flugvellinum, um 300 manns, kom flestum í opna skjöldu, þar á meðal Herði, eins og hann lýsti í viðtali í fréttum Stöðvar 2.

19 sæta skrúfuþota Ernis er aðeins 45 mínútur að skjótast milli Reykjavíkur og Húsavíkur þannig að Þingeyingar sjá fram á umtalsverða styttingu ferðatíma með beinu flugi í stað þess að fara um Akureyrarflugvöll, auk þess að losna við að aka um viðsjárverðan fjallveg um Víkurskarð, en Gunnlaugur Stefánsosn, forseti bæjarstjórnar Norðurþings, þakkaði Flugfélaginu Erni sérstaklega fyrir þessar samgöngubætur.

Vegleg flugstöð er á Aðaldalsflugvelli og hún kom sér vel til að hýsa mannhafið á gleðistund undir ræðuhöldum og veisluföngum.



Flugáætlun gerir ráð fyrir að flogið sé fjóra daga vikunnar, alls sjö ferðir, fram á haust en viðtökur eru slíkar að farið er að ræða um fjölga ferðum og fljúga jafnvel allt árið. Hörður Guðmundsson tekur þó fram að þetta sé tilraun og ef almenningur og fyrirtæki nýti ekki flugið þá gangi það ekki upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×