Innlent

Aukin þyngd sjúklinga hækkar kostnað vegna lyfja

Lillý Valgerður Pétursdóttir. skrifar
Aukin þyngd sjúklinga hefur hækkað kostnað Landspítalans vegna lyfja síðustu misseri. Munað getur nokkrum milljónum á einstökum lyfjameðferðum eftir þyngd fólks. Framkvæmdastjóri á spítalanum segir mikilvægt að huga að forvörnum þar sem þær geti sparað mikið.

Við höfum sagt frá því að kostnaður ríkisins vegna sérhæfðralyfja hefur farið vaxandi hér á landi síðustu ár. Lyfin sem um ræðir eru kölluð S-lyf og hefur Landspítalinn umsjón með þeim. Þau eru til að mynda notuð við slæmum gigtarsjúkdómum, krónískum sjúkdómum og krabbameini.

Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri Lækninga á Landspítalanum, segir að síðustu misseri hafi spítalinn orðið var við að kostnaður við lyfjameðferðir hefur aukist vegna þess að sjúklingarnir hafa þyngst. Ekki liggi fyrir nákvæmlega hversu mikið en einstök dæmi sýni þetta.

„Flest lyf eru skömmtuð samkvæmt þyngd. Ég get nefnt sem dæmi að eitt af þessum sérhæfðu lyfjum að fyrir sjötíu kíló einstakling þá kostar ársmeðferðin 6,7 milljónir en fyrir hundrað kílóa einstakling þá kostar sama meðferð 9,6 milljónir. Þetta er auðvitað atriði sem að heilsuhagfræðingar hafa bent á nýlega og svona dæmigerður vítahringur sem að getur myndast í heilbrigðiskerfinu og aftur leggur áherslu á mikilvægi forvarna og hvernig forvarnir geta sparað gríðarlega mikið þegar horft er fram á veginn," sagði Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×