Innlent

Borgin kaupir Alliance húsið á 340 milljónir

Inni í Alliance húsinu.
Inni í Alliance húsinu.
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær kaupsamning sem Reykjavíkurborg hefur gert um kaup á Alliance húsinu og meðfylgjandi lóðarréttindi að Grandagarði 2 samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Kaupir Reykjavíkurborg húsið og lóðina sem er 3.569 fm fyrir 340 milljónir.

Húsið er friðað að ytra byrði og verður 1. hæð hússins leigð Sögusafninu Perlunni ehf næstu 25 árin. Reykjavíkurborg gekk inn í kaupsamning sem Sögusafnið hafði gert við eiganda hússins, Inn Fjárfestingu ehf. Þær kvaðir hvíla á húsinu að það verði nýtt fyrir menningartengda starfsemi. Reykjavíkurborg hyggst gera húsið upp að utan.

Reykjavíkurborg vinnur nú að rammaskipulagi fyrir hafnarsvæðið. Sem eigandi hússins hefur Reykjavíkurborg fengið einstakt tækifæri til að skipuleggja lóðina.

Alliance húsið er hentugur staður fyrir Sögusafnið sem verið hefur til húsa í Perlunni en safninu var fyrir skömmu sagt upp leigusamningi sínum þar. Forráðamenn safnsins sjá fyrir sér líflega starfsemi í Alliance húsinu. Þá telja forráðamenn Sögusafnsins engan vafa leika á því að koma safnsins á Grandagarð muni styrkja þá starfsemi sem þar er fyrir.

Húsið var reist á árunum 1924 – 1925 til að hýsa umfangsmikla starfsemi útgerðarfyrirtækisins Alliance sem var stofnað af Thor Jensen og fleirum. Guðmundur H. Þorláksson, húsasmiður teiknaði húsið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×