Innlent

Vilja draga kvótafrumvörpin til baka

Kvótafrumvörp ríkisstjórnarinnar munu hafa neikvæð áhrif á sjávarbyggðirnar og rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Þetta kemur fram í greinargerð sérfræðingahóps á vegum atvinnuveganefndar Alþingis. Þingmenn Sjálfstæðisflokks vilja að ríkisstjórnin dragi frumvörpin til baka.

Atvinnuveganefnd Alþingis fékk þá Daða Má Kristófersson, dósent við Háskóla Íslands og Stefán B. Gunnlaugsson, lektor við Háskólann á Akureyri til að skrifa greinargerð um efnahagslegar afleiðingar kvótafrumvarpa ríkisstjórnarinnar. Greinargerðinni var skilað til nefndarinnar í gær.

Greinarhöfundar telja að frumvörpin muni hafa veruleg áhrif á efnahag sjávarútvegsfyrirtækja. Skuldsett fyrirtæki komi illa út úr þeim breytingum sem frumvörpin boða og þá gagnrýna skýrsluhöfundar sérstaklega álagningaraðferðir veiðigjalda og segja að miðað sé við úreltar tölur við útreikninga. Þá er einnig talið að frumvörpin muni hafa neikvæð áhrif á efnahag sjávarbyggða með beinum og óbeinum hætti.

Rætt var um málið í umræðu um störf þingsins á Alþingi í morgun. Sjálfstæðismenn töldu sýnt að frumvarpið væri illa unnið og því ætti að draga það til baka.



Kristján L. Möller, formaður Atvinnuveganefndar sagði að það væri hlutverk þingmanna að vinna með frumvarpið en ekki væri nauðsynlegt að draga það til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×