Innlent

Segjast hafa reynt að aðstoða fangann

Breki Logason skrifar

Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson segja engar barsmíðar hafa átt sér stað inni í fangaklefa fanga sem lést þar í síðustu viku. Honum hafi verið ómótt og þeir hafi einungis verið að aðstoða hann. Tvímenningarnir voru leiddir fyrir dómara í dag þar sem farið var fram á gæsluvarðhald.



Yfirheyrslur yfir tvímenningunum voru stuttar í dag en grunur leikur á að þeir hafi veitt fanganum, Sigurði Hólm Sigurðarsyni, áverka sem leiddu hann til dauða á fimmtudag í síðustu viku.



Lögreglan á Selfossi sem fer með rannsókn málsins gefur litlar upplýsingar um gang mála en samkvæmt heimildum fréttastofu hefur ekki verið sýnt fram á að innvortis áverkar sem fundust á líkinu hafi verið af mannavöldum. Myndbandsupptökur af fangelsisgangi sýna hinsvegar hvar Annþór og Börkur fara inn í klefa Sigurðar og koma þaðan út skömmu síðar.



Þeim ber saman um að ekkert ofbeldi hafi átt sér stað inni í klefanum, þeir hafi þekkt fórnarlambið þar sem þeir hafi áður setið saman inni á Litla Hrauni og þeir hafi einungis verið aðstoða Sigurð þar sem hann hafi virst veiklulegur og verið ómótt.



Margrét Frímannsdóttir fangelsisstjóri á Litla Hrauni segist hafa fundað með starfsfólki sínu síðan maðurinn lést og það sé samdómaálit að rétt hafi verið brugðist við. Málið sé að sjálfsögðu litið alvarlegum augum, margir hafi þekkt Sigurð vel og þeir sú harmi slegnir.



Annþór og Börkur voru síðan leiddir fyrir dómara rétt fyrir klukkan fjögur þar sem farið var fram á gæsluvarðhald svo hægt sé að halda þeim í einangrun. Dómari mun kveða upp úrskurð klukkan ellefu í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×