Lífið

Aukakílóin hrynja af skokkandi útgáfustjóra

Útgáfustjórinn Eiður Arnarsson hleypur í Elliðaárdalnum fjórum til fimm sinnum í viku. fréttablaðið/stefán
Útgáfustjórinn Eiður Arnarsson hleypur í Elliðaárdalnum fjórum til fimm sinnum í viku. fréttablaðið/stefán
Eiður Arnarsson, útgáfustjóri afþreyingarfyrirtækisins Senu, hefur misst þrettán kíló síðan hann byrjaði að stunda langhlaup í september ásamt eiginkonu sinni. Hann stefnir á að hlaupa hálfmaraþon (21 km) í Reykjavíkurmaraþoninu í haust.

„Það var engin sérstök ástæða fyrir því að ég ákvað að prófa þetta. Það var kominn tími til að reyna að gera eitthvað. Ég var orðinn aðeins of þungur,“ segir Eiður, sem hafði ekki hreyft sig að ráði síðan hann var kjörinn besti leikmaður 5. flokks B-liða hjá Þór í Vestmannaeyjum árið 1978. Hann fær mikla ánægju út úr hlaupunum, auk þess sem þau nýtast honum vel í starfinu. „Ég held að þetta sé þetta margfræga endorfínkikk sem margir tala um og ég get ekki hugsað mér að fara út að hlaupa án þess að hlusta á músík. Fyrir vikið er ég að hlusta ennþá meira en áður.“

Hann hleypur í Elliðaárdalnum fjórum til fimm sinnum í viku, tíu til tuttugu kílómetra í senn.

„Einhver benti mér á að maður ætti að nota önnur áhugamál inn í þetta til að hjálpa sér. Ég er eins og flestir karlmenn með óttalega tæknidellu og ég er búinn frá fyrsta degi að hlaupa með GPS-staðsetningarkerfi. Þannig að maður er að nota nýja, flotta snjallsímann til að halda utan um vegalengdir og hraða.“

Eiður er mikill matgæðingur og hefur verið duglegur að deila því áhugamáli með vinum sínum á Facebook. Hann segir að hlaupin geri sér kleift að halda áfram að borða gómsætan mat án þess að fá of mikið samviskubit. „En eflaust kemur að því að maður þarf að vitkast á þeim vettvangi líka.“

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.