Lífið

Fámennt en góðmennt í Galtalæk

Alexander Kárason og aðstandendur útihátíðarinnar sem fór fram í Galtalæk um liðna helgi voru ekki ánægðir með mætinguna, sem var langt undir væntingum.
Alexander Kárason og aðstandendur útihátíðarinnar sem fór fram í Galtalæk um liðna helgi voru ekki ánægðir með mætinguna, sem var langt undir væntingum.
„Við erum alls ekki ánægðir með þetta en svona gerist stundum," segir Alexander Kárason, einn aðstandenda tónlistar-og jaðarsportshátíðar sem fram fór í Galtalæk um helgina, en gestafjöldi hátíðarinnar var langt undir væntingum.

Lögreglan staðfestir að um 500 manns hafi verið þegar mest lét en aðstandendur hátíðarinnar höfðu reiknað með 5.000 gestum. Alexander kennir helst tímasetningunni um slæma mætingu, en helgin var síðasta helgi fyrir mánaðamót og önnur útihátíð er á svipuðum stað eftir tvær vikur.

„Já, við kennum helst röngum dagsetningum um það að fólkið lét ekki sjá sig. Við erum samt að skoða allar hliðar og viljum ekki bara kenna því um." Alexander vill meina að slæm mæting hafi bitnað hvað mest á listamönnunum, enda ekki gaman að spila fyrir fáa áhorfendur. Á hátíðinni komu meðal annars fram Dikta, Blaz Roca, Valdimar og Friðrik Dór.

Erpur Eyvindarson kom fram á hátíðinni og segir að fámennt hafi verið en góðmennt.
„Það var fámennt en góðmennt. Ég fór beint eftir tónleikana mína, svo ég gisti ekki á svæðinu," segir Erpur „Blaz Roca" Eyvindarson og bætir við að hann hafi þó náð góðri stemningu á sínum tónleikum.

„Það var allavega nóg pláss fyrir þá sem komu og gestir skemmtu sér vel. Allir sem lögðu hönd á plóg stóðu sig með sóma," segir Alexander og vill ekkert gefa upp um hvort lagt verði í að halda sams konar hátíð að ári. - áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.