Íslenski boltinn

Umfjöllun: Þórarinn tryggði ÍBV sigurinn í lokin

Valur Smári Heimisson skrifar
Þórarinn Ingi Valdimarsson.
Þórarinn Ingi Valdimarsson. Mynd/Hag
Þórarinn Ingi Valdimarsson tryggði Eyjamönnum 2-1 sigur á Keflavík í fyrsta leik 16. umferðar Pepsi-deildar karla sem fór fram á Hásteinsvellinum í Eyjum í dag. Eyjamenn minnkuðu þar með forskot KR á toppnum í eitt stig og ætla greinilega ekki að gefa neitt eftir í titilbaráttunni.

Þórarinn skoraði sigurmarkið sitt með skalla á 86. mínútu eftir fyrirgjöf frá Tryggva Guðmundssyni. Brynjar Gauti Guðjónsson hafði komið ÍBV yfir á 38. mínútu með skoti fyrir utan teig en Magnús Þórir Matthíasson jafnaði leikinn í upphafi seinni hálfleiks.

KR er með 33 stig og ÍBV er með 32 stig en KR-ingar eiga tvo leiki inni á Eyjamenn. KR tekur á móti Stjörnunni á morgun og toppliðin mætast síðan á KR-vellinum á fimmtudaginn kemur.

Haraldur Freyr var í banni hjá Keflvíkingum og Kelvin Mellor var farinn utan úr liði Eyjamanna.

Keflvíkingar mættu mun ákveðnari til leiks og voru heldur betri aðilinn í fyrri hálfleik. Það dugði þeim þó ekki því Eyjamenn komu inn í hálfleikinn með 1–0 forystu eftir að Brynjar Gauti skoraði flott mark. Keflvíkingar reyndu að hreinsa boltan úr vítateignum, boltinn barst til Brynjars sem var rétt utan teigs og lét vaða á markið og Ómar í marki Keflvíkinga náði ekki að halda boltanum sem fór í markið.

Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur, gerði eina breytingu í hálfleik, Arnór Ingvi Traustason fór meiddur útaf og inná kom Sigurbergur Elísson.  Sigurbergur náði strax að setja mark sitt á leikinn þegar hann fékk aukaspyrnu á miðjum vallarhelming Eyjamanna. Hann var fljótur að taka spyrnuna, sendi út á kannt á Magnús Þórir Matthíasson sem átti frábært skot yfir Albert Sævarson markvörð Eyjamanna og í markið.

Leikurinn var í nokkru jafnvægi eftir jöfnunarmarkið en Eyjamenn náðu að skora þegar Keflvíkingar gleymdu sér í dekkingu. Hinn síungi Tryggvi Guðmundsson átti glæsilega fyrirgjöf á Þórarinn sem gerði allt rétt þegar hann stangaði boltann í netið. „Það var nú bara þannig að gamli maðurinn setti boltann bara beint á pönnuna á mér og ég þurfti ekki að gera mikið til að skora.“ sagði Þórarinn Ingi.

Eftir það náðu Eyjamenn tökum á leiknum og sigurinn var aldrei í hættu. Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV sagði að breyting á uppstillingu og innkoma varamannanna hafi skilað miklu í sigrinum í dag.

„Ég er mjög ánægður með skiptingarnar hjá mér í leiknum og ég er ánægður með strákana sem komu inná. Varamennirnir komu með virkilega mikinn kraft inn í liðið og það er einmitt það sem maður vill sjá þegar maður er að skipta inná," sagði Heimir.



ÍBV – Keflavík 2–1

Hásteinsvöllur, Áhorfendur: 784

Dómari: Kristinn Jakobsson (6)

Mörkin:

1-0 Brynjar Gauti Guðjónsson (38.)

1-1 Magnús Þórir Matthíasson (50.)

2-1 Þórarinn Ingi Valdimarsson (86.)

Tölfræðin:

Skot (á mark): 15 – 7 (11-4)

Varin skot: Albert 3 – Ómar 9

Horn: 9 – 2

Aukaspyrnur fengnar: 11–14

Rangstöður: 4-4

ÍBV (4–3–3):

Albert Sævarsson 6

Arnór Eyvar Ólafsson 4   

(83., Kjartan Guðjónsson -)

Rasmus Christiansen 6

Brynjar Gauti Guðjónsson 6  

(65., Aaron Spear 5)

Matt Garner 7

Finnur Ólafsson 7

Tonny Mawejje 5  

(65., Guðmundur Þórarinsson  6)

Þórarinn Ingi Valdimarsson 7 – Maður leiksins

Tryggvi Guðmundsson 7

Ian Jeffs 6

Andri Ólafsson 6

Keflavík (4-4-2):

Ómar Jóhannsson 6

Guðjón Árni Antoníusson 5

Adam Larsson 6

Ásgrímur Rúnarsson 5

Viktor Smári Hafsteinsson 6

Einar Orri Einarsson 5

Andri Steinn Birgisson 6

Arnór Ingvi Traustason 6  

(45., Sigurbergur Elísson 7)

Magnús Þórir Matthíasson 7  

(83, Magnús Þór Magnússon -)

Hilmar Geir Eiðsson 5  

83., Bojan Stefán Ljubicic (-)

Guðmundur Steinarsson 6




Fleiri fréttir

Sjá meira


×