Lífið

Sjötíu þúsund plötur á átta árum

Tónlistarmaðurinn Mugison hefur selt plötur sínar í tæpum sjötíu þúsund eintökum. Þetta er mjög góður árangur, sérstaklega í ljósi þess að einungis átta ár eru liðin síðan fyrsta plata hans, Lonely Mountain, kom út.

Um er að ræða sölu á plötunum bæði hér heima og erlendis en meirihlutinn er heimasala. Samkvæmt upplýsingum frá tónlistarmanninum sjálfum, hefur síðasta plata Mugison, Mugiboogie, selst mest eða í 25 þúsund eintökum. Skammt undan er Mugimama, Is This Monkeymusic með rúm 23 þúsund eintök. Í þriðja sæti kemur Lonely Mountain sem hefur selst í um þrettán þúsund stykkjum og því næst hafa Ítrekun og tónlist Mugison við kvikmyndirnar A Little Trip To Heaven, Mýrina og Niceland selst samanlagt í sex til sjö þúsund eintökum.

Fjórða eiginlega sólóplata Mugisons kemur út í næstu viku, eða laugardaginn 1. október, og heitir hún Haglél, eftir laginu sem hljómaði í sumar við góðar undirtektir. Sama dag heldur hann útgáfutónleika í Fríkirkjunni. Fólk getur þó keypt plötuna viku fyrr í forsölu og hlaðið henni niður á síðunni Mugison.is.

Ef eitthvað er að marka viðtökurnar við síðustu plötum má búast við mjög góðri sölu á Hagléli og skemmir það varla fyrir að á henni syngur Mugison í fyrsta sinn öll lögin á íslensku. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.