Þeir sem fara á kvikmyndina Spy Kids 3 í bíó geta kynnst fjórvíddarbíói. Auk þrívíddargleraugna fá þeir afhent lyktarspjald við innganginn.
Sena hyggst bjóða gestum fjölskyldumyndarinnar Spy Kids 3 með Jessicu Alba og Jeremy Piven að prófa fjórvíddarbíó í fyrsta skipti. Guðmundur Breiðfjörð, markaðsstjóri hjá Senu, segir þetta vera í fyrsta skipti sem þetta sé reynt hér á landi.
„Bíógestir fá þrívíddargleraugu og sérstakt lyktarspjald. Á átta stöðum í myndinni munu bíógestir nudda sérstakt spjald til að finna lyktina af viðkomandi atriði. Númer birtist á tjaldinu og þá nuddar viðkomandi bíógestur númerið á spjaldinu,“ útskýrir Guðmundur, en hann hyggst halda því leyndu hvaða lykt verður á spjaldinu. „Við ætlum ekki að segja hvort þetta verði ilmurinn af gómsætum mat eða lykt af sprengingu, fólk verður bara að mæta í bíó til að upplifa þetta í fyrsta sinn.“
Hálfgerð bylting varð í kvikmyndahúsum þegar þrívíddarkvikmynd James Cameron, Avatar, var frumsýnd. Hvort fjórvíddin með allri sinni lykt verður næsta skrefið í tæknivæðingu Hollywood-kvikmynda verður síðan bara að koma í ljós.
freyrgigja@frettabladid.is
Boðið upp á bíó í fjórvídd
