Lífið

Síðbúin útrás Ný danskrar

Ný danskir ætla að spila á tónleikum á Bryggen í Kaupmannahöfn 9. september. Fréttablaðið/Anton
Ný danskir ætla að spila á tónleikum á Bryggen í Kaupmannahöfn 9. september. Fréttablaðið/Anton
„Þetta verður í fyrsta skipti sem við spilum í Kaupmannahöfn Og raunar í fyrsta skipti sem við spilum erlendis síðan við reyndum að meika það á Englandi í „den“. Það næsta sem við höfum komist útlöndum síðan þá eru bara Vestmannaeyjar,“ segir Jón Ólafsson, hljómborðsleikari Ný danskrar.

Sveitin, sem verður 25 ára gömul á næsta ári, ætlar að halda tónleika á tónleikastaðnum Bryggen í gamla höfuðstaðnum 9. september næstkomandi. Jón segir þá renna blint í sjóinn með aðsókn en vonast þó til að íbúar gamla höfuðstaðarins kunni að meta heimsókn frá „gömlu brýnunum“ eins og hann kemst sjálfur að orði. „Ég hef trú á því að Íslendingar sem hafa verið búsettir lengi í Danmörku eigi eftir að láta sjá sig.“

Það kann kannski að koma einhverjum á óvart að það skuli vera svona langt síðan Ný dönsk hélt tónleika fyrir utan landsteinana. Á tímum útrásarvíkinga var ekki óalgengt að íslenskum listamönnum væri flogið í starfsmannapartí en Ný dönsk varð þess heiðurs aldrei aðnjótandi. „Við spiluðum náttúrlega í brúðkaupi aldarinnar hjá Jóni Ásgeiri og ég spilaði sjálfur í nokkrum slíkum veislum en við gerðum þetta aldrei saman sem hljómsveit.“

Jón segir að þeir verði allir með á tónleikunum í Kaupmannahöfn. Þeir hafi haft það fyrir reglu síðan Daníel Ágúst snéri aftur í hljómsveitina 2007 að koma helst ekki fram nema fullmannaðir.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.