Lífið

Crispin Glover til Íslands

Crispin Glover er væntanlegur til landsins í næsta mánuði.
Crispin Glover er væntanlegur til landsins í næsta mánuði.
„Ég var staddur á tónlistarhátíð á Englandi fyrir tveimur árum og þá var hann með þessa sýningu sína. Ég varð mjög spenntur fyrir því að fá hana til Íslands enda var þetta eitthvað það magnaðasta sem ég hef séð," segir Sigurður Magnús Finnsson. Hann stendur fyrir óvenjulegum viðburði í Bíó Paradís í næsta mánuði.

Leikarinn Crispin Glover ætlar að vera viðstaddur sýningar á tveimur mynda sinna, sitja fyrir svörum og flytja loks leikverkið sitt Crispin Hellion Glover's Big Slide Show en það byggir á bókum sem hann hefur gefið út.

Crispin Glover lék meðal annars pabba Marty McFly í fyrstu Back to the Future-myndinni. Þegar framleiðendur myndarinnar, en einn af þeim var Steven Spielberg, vildu fá hann til að leika í mynd númer tvö sagði Glover nei og endaði á því að fara í mál við þá eftir að myndir af honum voru notaðar í leyfisleysi í framhaldsmyndinni.

Sigurður Magnús Finnsson.
Glover hefur síðan þá haldið sig á jaðri kvikmyndaborgarinnar en birtist af og til í litlum hlutverkum í stórum myndum á borð við Alice in Wonderland og Charlie's Angels. Þá lék hann Andy Warhol í Doors-mynd Olivers Stone.

„Hann notar þá peninga til að fjármagna sínar eigin myndir," segir Sigurður. Glover hefur jafnframt haft orð á sér fyrir að vera sérvitringur og Sigurður Magnús segir hann hafa lúmskt gaman af því orðspori og geri jafnvel út á það.

Hann lofar einstakri skemmtun, þetta sé fjögurra tíma sýning sem enginn ætti að verða svikinn af. „Þegar hún hafði runnið sitt skeið á Englandi þá vildi ég bara meira."

- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.