Lífið

The Blondies með lag á afmælisdegi Ásdísar

„Ég á afmæli í dag og það var því algjör skyndiákvörðun að skella laginu í spilun í tilefni af því," segir Ásdís Rán Gunnarsdóttir en í dag verður nýtt lag með dúett hennar og Óskar Norðfjörð frumflutt á útvarpstöðinni FM 957.

Vinkonurnar kalla sig The Blondies sem er bein vísun í ljósan háralit stúlknanna. Lagið nefnist „All She Need Is Love" og fellur undir tónlistarstefnuna „dubstep pop".

„Þetta er ný stefna í tónlistarheiminum í dag og að koma mjög sterkt inn, til dæmis í Þýskalandi og fleiri löndum," segir Ásdís.

Ásdís Rán hefur verið með lagið í bígerð lengi og tekið upp búta úr laginu þegar hún hefur verið hérna heima í fríi. „Við erum búnar að hittast í stúdíói og erum að dunda okkur að þessu saman," segir Ásdís en eftir að lagið hefur verið frumflutt verður það fáanlegt á vefnum tonlist.is.

Vinkonurnar Ásdís Rán og Ósk hafa báðar gefið út lög hvor í sínu lagi en þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem þær leiða saman hesta sína. „Verður maður ekki bara að hafa gaman af lífinu á meðan maður getur? Við erum bara í þessu til að skemmta okkur vel saman. Maður veit samt aldrei hvort þetta leiðir okkur eitthvert annað," segir Ásdís sem er byrjuð að skoða hvort lagið komist jafnvel í spilun í Búlgaríu.

„Nú ætlum við bara að sjá hvernig viðtökurnar verða og ég skála svo í hvítvíni í afmælisveislu í kvöld." - áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.