Lífið

Björn fyllir skarð Gísla í mynd Nilla

Björn Thors fer með hlutverk í fyrstu stuttmynd Nilla, sem fer í tökur í september.
Björn Thors fer með hlutverk í fyrstu stuttmynd Nilla, sem fer í tökur í september.
„Björn Thors og Gísli Örn eru með glæsilegri leikurum sem Ísland hefur upp á að bjóða í dag,“ segir sjónvarpsmaðurinn Níels Thibaud Girerd, best þekktur sem Nilli.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í júní þá vinnur Nilli að fyrstu stuttmynd sinni ásamt Daníel Gylfasyni og Einari Karli Gunnarssyni. Til stóð að Gísli Örn Garðarsson færi með aðalhlutverkið í myndinni, sem fjallar um hugarheim fíkils. Hann forfallaðist hins vegar vegna anna við leikstjórn Hróa hattar í London, en Nilli á ráð undir rifi hverju og fékk annan stórleikara í stað Gísla, engan annan en Björn Thors.

„Ég er alveg í skýjunum yfir þessu,“ segir Nilli og bætir við að Björn hafi tekið vel í bón sína. „Mér finnst Björn Thors alls ekkert síðri leikari en Gísli Örn, enda hafa þeir leikið saman í verkinu Hamskiptin eftir Kafka.“

Nilli leitar nú að dökkhærðum drengjum á aldrinum 6, 12 og 17 ára (innsk. Nilla: Plús mínus eitt ár) til að fara með hlutverk í myndinni. Áheyrnarprufur fara fram í félagsmiðstöðinni Selinu á Seltjarnarnesi næstkomandi laugardag klukkan 13. Áhugasömum er bent á að senda póst á villa.kvik@gmail.com.- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.