Lífið

Baldwin stefnir á embætti borgarstjóra í New York

Ástfanginn á leið í pólitík Leikarinn Alec Baldwin stefnir á að bjóða sig fram til borgarstjóra í New York. Hér sést hann með kærustunni, hinni 27 ára gömlu Hilariu Thomas.Nordicphotos/Getty
Ástfanginn á leið í pólitík Leikarinn Alec Baldwin stefnir á að bjóða sig fram til borgarstjóra í New York. Hér sést hann með kærustunni, hinni 27 ára gömlu Hilariu Thomas.Nordicphotos/Getty
Alec Baldwin hefur viðurkennt að hann beri með sér í brjósti draum um að verða borgarstjóri í New York. Baldwin kveðst þó ekki ætla fram árið 2013 en hyggst nýta tímann fram að næstu kosningum vel til undirbúnings.

„Ég er meðvitaður um það að ég gæti farið út í þetta og skíttapað. Ég gæti haldið partí sem enginn mætti í. Og það yrði mér þrautin þyngri," segir leikarinn Alec Baldwin um mögulegt framboð í borgarstjórakosningum í New York. Talsvert hefur verið þrýst á Baldwin að bjóða sig fram árið 2013 en hann telur það of snemmt. Þess í stað vill hann undirbúa sig vel og bíða eftir rétta tækifærinu.

Alec Baldwin hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár í hlutverki sínu í sjónvarpsþáttunum 30 Rock. Hann hefur skuldbundið sig til að leika í þáttunum út næsta vetur og koma fram endrum og sinnum eftir það. Baldwin áformar að setjast á skólabekk haustið 2012 og kveðst eiga í viðræðum við tvo þekkta háskóla um meistaranám í stjórnmálum og stjórnsýslu. Með því vill hann öðlast betri skilning á eðli starfs borgarstjóra fyrir framboð sitt.

Í 30 Rock leikur Baldwin forstjórann Jack Donaghy sem er harður repúblikani og stendur fast á íhaldssömum skoðunum sínum. Baldwin er aftur á móti demókrati, grænmetisæta og hefur tekið þátt í baráttu PETA fyrir réttri meðferð á dýrum. Í viðtali í New York Times í vikunni kom fram að Baldwin býr ekki eins og aðrir auðmenn í úthverfi borgarinnar, hann hefur búið á sama stað á Upper West Side í yfir tvo áratugi. Leikarinn telur sig halda góðum tengslum við borgarbúa með þessu. „Þetta er raunverulegra," sagði hann.

Fram undan eru reyndar flutningar nær miðbænum; Baldwin vill vera nálægt kærustu sinni, hinni 27 ára Hilariu Thomas sem starfar á jógastöð. Sjálfur er Alec Baldwin 53 ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.