Lífið

Sjá Big Lebowski-leikara í New York

Freyr Bjarnason skrifar
Svavar Helgi Jakobsson og Ólafur Sverrir Jakobsson eru á leiðinni í pílagrímsför til New York.
Svavar Helgi Jakobsson og Ólafur Sverrir Jakobsson eru á leiðinni í pílagrímsför til New York. fréttablaðið/valli
„Við erum búnir að panta flug og miða og hótel. Þetta verður algjör snilld,“ segir Svavar Helgi Jakobsson.

Hann og vinur hans Ólafur Sverrir Jakobsson eru á leiðinni í mikla pílagrímsför. Þeir verða viðstaddir stóra hátíð í New York um miðjan ágúst þar sem allt leikaralið gamanmyndarinnar vinsælu The Big Lebowski verður samankomið. Sjálfir hafa þeir félagar skipulagt Big Lebowski-hátíðir hérlendis undanfarin ár en myndin hefur öðlast költstöðu meðal aðdáenda hennar víða um heim. Yfir eitt hundrað manns sóttu fimmtu hátíðina sem var haldin í Keiluhöllinni í mars síðastliðnum.

Leikararnir Jeff Bridges, John Goodman, Steve Buscemi og Julianne Moore verða öll stödd í Hammerstein-salnum í New York 16. ágúst þar sem þau munu svara spurningum úr salnum. Daginn áður verður haldið keilupartí og búningakeppni og munu þeir Ólafur og Helgi að sjálfsögðu taka þátt í báðum viðburðunum. „Við ætlum að reyna að grafa upp einhverja góða spurningu til að spyrja þau fyrst þau sitja fyrir svörum,“ segir Svavar spenntur.

Lebowski-hátíðir hafa verið haldnar árlega síðustu tíu ár í Bandaríkjunum en þetta verður í fyrsta sinn sem Svavar og Ólafur mæta. Einnig er afar sjaldgæft að leikarar úr myndinni mæti á slíkar hátíðir. Ástæðan fyrir komu þeirra nú er ný útgáfa myndarinnar á Blu-ray-mynddiski, auk þess sem Jeff Bridges, sem lék hinn húðlata friðarsinna The Dude, er að gefa út sólóplötu. „Maður er að vona að hann taki upp gítarinn og jafnvel sloppinn líka. Það væri draumurinn,“ segir Svavar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.