Innlent

Banna böð í Laugarvatni vegna saurgerla

Baðgestum er meinað að synda í Laugarvatni sökum ekolígerla sem fundist hafa í vatninu. Uppruna mengunarinnar er að finna í skólpkerfi byggðakjarnans við vatnið, en vonast er til að úr rætist áður en langt um líður. Myndin tengist fréttinni ekki beint.Fréttablaðið/Vilhelm
Baðgestum er meinað að synda í Laugarvatni sökum ekolígerla sem fundist hafa í vatninu. Uppruna mengunarinnar er að finna í skólpkerfi byggðakjarnans við vatnið, en vonast er til að úr rætist áður en langt um líður. Myndin tengist fréttinni ekki beint.Fréttablaðið/Vilhelm
Valtýr Valtýsson
Vegna E. colimengunar sem uppgötvaðist í sumar hefur Heilbrigðiseftirlit Suðurlands bannað fólki að baða sig í Laugarvatni. Sveitarstjóri segir orsökina vera mengun úr holræsakerfi frá þéttbýlinu í kringum vatnið.

„Það kom heitt vatn inn á hreinsikerfið hjá okkur, sem gerði það að verkum að gerlamyndun eyðilagðist,“ segir Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, í samtali við Fréttablaðið.

„Við þurfum að byggja upp ákveðna gerlaflóru í hreinsimannvirkinu og erum búin að panta hluti í búnaðinn sem skemmdist. Við erum að reyna að bjarga málinu eins hratt og hægt er.“

Valtýr segir að erfitt sé að segja hvenær von er á að úr rætist en viðgerð á búnaðinum verði vonandi lokið á næstu dögum eða vikum.

Baðstaðurinn Fontana var opnaður nýlega við Laugarvatn og þó að allt sé til reiðu þar, fara forsvarsmenn staðarins að tilmælum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og eru ekki með opið fyrir gesti sína að vatninu.

Anna G. Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Fontana, sagði í samtali við Fréttablaðið að málið hefði ekki tafið undirbúning baðstaðarins. Önnur aðstaða, líkt og gufubað, sé opin gestum og rekstur hafi gengið vel. Hún vísaði annars á heilbrigðiseftirlitið.

Sigrún Guðmundsdóttir, heilbrigðisfulltrúi á matvæla- og heilbrigðissviði Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, segir í samtali við Fréttablaðið að um öryggisatriði sé að ræða. „Við höfum ekki veitt leyfi til að hleypa gestum ofan í vatnið vegna þess að við teljum það ekki öruggt. Það er þó verið að vinna að lausn á þessu máli í samvinnu margra aðila.“

Sigrún segir að saurgerlamengunina megi einnig rekja til þess að hluti af fráveitulögnum sé kominn til ára sinna. Unnið sé að því að koma lögnum í rétt horf og nokkuð hafi unnist í þeim efnum. „En því miður tókst það ekki að fullu áður en Fontana opnaði.“ Sigrún bætir því þó við að það jákvæða í málinu sé að virkt eftirlit sé til staðar. „Við hleypum fólki ekki í vatnið nema það sé öruggt.“

thorgils@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.