Lífið

Moses Hightower syrgir Moses Hightower

Hljómsveitin Moses Hightower syrgir nú leikarann Bubba Smith, sem lést á dögunum. Hann lék ljúfa risann Moses Hightower í Lögregluskólamyndunum á níunda áratugnum.
Hljómsveitin Moses Hightower syrgir nú leikarann Bubba Smith, sem lést á dögunum. Hann lék ljúfa risann Moses Hightower í Lögregluskólamyndunum á níunda áratugnum. Fréttablaðið/HAG
„Þetta er töluvert áfall fyrir okkur," segir Andri Ólafsson, bassaleikari og annar söngvara hljómsveitarinnar Moses Hightower.

Bandaríski leikarinn Charles Aaron „Bubba" Smith lést á miðvikudag, 66 ára að aldri. Hann var þekktastur fyrir hlutverk sitt sem ljúfi risinn Moses Hightower í Police Academy-myndunum sem voru vinsælar á níunda áratug síðustu aldar. Andri og félagar nefndu hljómsveitina eftir persónu Smiths og voru slegnir að heyra um andlát leikarans.

Ætlar hljómsveitin að minnast Bubba Smith á einhvern hátt?

„Þetta bar mjög brátt að, þannig að við höfum ekki beinlínis haft mikinn tíma til undirbúnings. En við munum að minnsta kosti minnast hans með örfáum orðum á tónleikum í kvöld. Meira hefur ekki verið ákveðið," segir Andri, en Moses Hightower kom fram á tónleikum í Norðurpólnum á Seltjarnarnesi í gær.

Andri játar að meðlimir Moses Hightower séu aðdáendur Lögregluskólamyndanna, eða allavega upp að því marki sem það er hægt sem fullorðnir einstaklingar. „Ætli það sé ekki líklegt að hljómsveitin haldi Lögregluskólavöku," segir Andri og bætir við að hljómsveitin heiðri minningu leikarans með því að halda áfram að heita Moses Hightower. „Og halda áfram að gefa út plötur."- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.