Lífið

Noregstónleikum Sin Fang aflýst

Sindri Már og félagar í Sin Fang spila ekki á norskri tónlistarhátíð vegna voðaverkanna þar í landi.
Sindri Már og félagar í Sin Fang spila ekki á norskri tónlistarhátíð vegna voðaverkanna þar í landi. Mynd/Stefán
„Þegar þetta gerðist bjóst maður ekkert við því að fólk væri í einhverri partístemningu,“ segir Sindri Már Sigfússon, forsprakki Sing Fang.

Hljómsveitin átti að spila á tónlistarhátíðinni Storåsfestivalen í Noregi næsta laugardag en hátíðinni var aflýst vegna voðaverkanna þar í landi. Að sögn Sindra Más var mikil tilhlökkun hjá meðlimum Sin Fang að spila á hátíðinni áður en atburðirnir áttu sér stað. Á meðal annarra banda sem áttu að spila var The Go! Team frá Englandi. Sin Fang hefur þó ekki gefið Noreg upp á bátinn því sveitin spilar þar í september. Tónleikarnir verða hluti af stórri tónleikaferð um Evrópu sem hefst í lok ágúst.

Í stað þess að spila á Storåsfestivalen spilar Sin Fang á Innipúkanum um verslunarmannahelgina. Þar hefur Sindri Már oft spilað áður, meðal annars á fyrstu hátíðinni fyrir níu árum með hljómsveitinni Lovers Without Lovers. „Við fengum dóm eftir þá tónleika að við hlytum að vera skyldir einhverjum sem skipulagði hátíðina. Þetta herti mann bara,“ segir Sindri hress.

Hann hefur í sumar verið að taka upp nýja Sin Fang-plötu sem kemur út á næsta ári. Í fyrsta sinn var upptökustjóri honum til aðstoðar og kom það í hlut Alex Somers, kærasta Jónsa í Sigur Rós. „Hann er mjög klár. Það er gaman að þurfa ekki að taka upp og spila líka. Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt.“

- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.