Lífið

Féll þrjá metra í miðri sýningu

Jóhannes Haukur Jóhannesson féll úr kaðli á sýningu á Hárinu í Hörpunni á fimmtudagskvöldið.
Jóhannes Haukur Jóhannesson féll úr kaðli á sýningu á Hárinu í Hörpunni á fimmtudagskvöldið. Mynd/Arnþór
„Ég var skíthræddur um að ég hefði slasað mig alveg hrikalega,“ segir Jóhannes Haukur Jóhannesson leikari.

Jóhann hræddi sjálfan sig og 500 leikhúsgesti á sýningu Hársins á fimmtudagskvöldið þegar hann féll úr kaðli í upphafi sýningarinnar. „Ég byrja á að standa á efri palli og syngja. Því næst sveifla ég mér með kaðli niður á sviðið. Í þetta sinn hef ég farið of geyst í sveifluna. Ég fór upp í ljósraufarnar hinum megin þannig að það kom lykkja á kaðalinn og ég missti takið,“ segir Jóhannes en fallið var þrír metrar.

„Ég datt af sviðinu og niður á gólf og stöðvaðist við áhorfendabekkinn. Þar lá ég bara grafkyrr og viss um að ég hefði slasast alvarlega. Ég var í algeru sjokki,“ segir Jóhannes en áhorfendur tóku andköf og mátti heyra saumnál detta á meðan Jóhannes lá á gólfinu.

„Matti Matt varð vitni að þessu öllu saman af sviðinu og var fyrstur til að hlaupa að mér og athuga hvort allt væri í lagi með mig,“ segir Jóhannes, sem kom sjálfum sér á óvart þegar hann stóð upp heill á húfi undir lófaklappi áhorfenda og kláraði sýninguna þar sem frá var horfið.

„Svona eftir á að hyggja varð mér til happs hvað ég er kominn í gott form eftir tökurnar á myndinni Svartur á leik. Fyrir myndina var ég líka í brjáluðum æfingabúðum hjá Mjölni og lærði hjá þeim að detta án þess að verða fyrir meiðslum,“ segir Jóhannes og gantast með það að hann geti farið að snúa sér að áhættuleik í framtíðinni.

Jóhannes sveiflaði sér í kaðlinum á sýningu strax daginn eftir fór svo sannarlega varlega.- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.