Lífið

Reynslubolti ráðinn dagskrárstjóri

Hilmar Björnsson er nýr dagskrárstjóri Skjá Eins og er með fullt af hugmyndum.
Hilmar Björnsson er nýr dagskrárstjóri Skjá Eins og er með fullt af hugmyndum. Mynd/Anton
„Þetta var einfaldlega áskorun sem ég gat ekki skorast undan,“ segir Hilmar Björnsson, nýráðinn dagskrárstjóri sjónvarpstöðvarinnar Skjár einn.

Eins og Fréttablaðið greindi frá sóttu margir um starfið en Kristjana Thors Brynjólfsdóttir hefur gegnt starfinu undanfarin ár. Hilmar hefur verið sjónvarpsstjóri Skjás Golfs undanfarna mánuði en hann hefur mikla reynslu úr fjölmiðlaheiminum. Til dæmis var hann sjónvarpsstjóri hjá Sýn og seinna Stöð 2 Sport og hann sá um útsendingar Ríkissjónvarpsins frá HM í knattspyrnu í fyrrasumar.

„Það er fyndið að segja frá því að á síðasta ári var ég að vinna hjá öllum sjónvarpsstöðvum landsins á rúmu ári,“ segir Hilmar, sem tekur formlega við nýja starfinu á mánudaginn.

Hilmar boðar ekki miklar breytingar en leggur áherslu á að halda í þá 25 þúsund áskrifendur sem stöðin hefur nú þegar. „Ég er með fullt af hugmyndum en á eftir að skoða hverjar þeirra ég get framkvæmt. Það er þekkt dæmi að góð íslensk dagskrárgerð selur áskriftir og ætla ég því að vera með allar klær úti í þeim efnum,“ segir hann og bætir við að Skjár Einn ætli sér að virða sinn áhorfendahóp, sem flestir eru að leitast eftir ódýrri afþreyingu.

„Við erum að sjá gríðarlegan uppgang í Skjá Frelsi, þar sem fólk getur horft á þættina þegar þeim hentar. Þá eru áhorfendur í rauninni sínir eigin dagskrárstjórar.“ - áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.