Lífið

Opnar kaffihús á Snæfellsnesi

Ólafur Haukur Símonarson rithöfundur og eiginkona hans Guðlaug María Bjarnadóttir hafa opnað kaffihúsið Prímus á Hellnum við Snæfellsnes.
FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
Ólafur Haukur Símonarson rithöfundur og eiginkona hans Guðlaug María Bjarnadóttir hafa opnað kaffihúsið Prímus á Hellnum við Snæfellsnes. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
„Þetta er hvorki gamall né nýr draumur hjá okkur hjónunum en við fengum fyrir tilviljun þennan stað upp í hendurnar og ákváðum að prufa að opna kaffihús,“ segir rithöfundurinn og leikskáldið Ólafur Haukur Símonarson, sem opnaði á dögunum kaffihús með eiginkonu sinni Guðlaugu Maríu Bjarnadóttur.

Kaffihúsið nefnist Kaffi Prímus og er staðsett á Hellnum á Snæfellnesi. Guðlaug sér alfarið um reksturinn en Ólafur segist styðja vel við bakið á henni. „Ég hef nóg á minni könnu í sumar og er því lítið að sniglast þarna en Guðlaug ber hitann og þungann af daglegum rekstri. Ég hoppa inn ef hún er alveg að bugast,“ segir Ólafur í glettnum tón en þau hjónin hafa verið með annan fótinn á Snæfellsnesi undanfarin ár og þekkja vel til svæðisins.

„Við erum bara að prufa þetta í sumar til að byrja með og ég býst ekki við því að við höldum áfram í haust en Guðlaug er í fullu starfi sem kennari,“ segir Ólafur og bætir við að það hafi verið nóg að gera á kaffihúsinu frá opnun í júní.

„Við erum umvafin náttúruperlum hérna og svæðið mjög vinsælt hjá ferðamönnum. Það er ekki amalegt að vera við rætur þjóðgarðsins,“ segir Ólafur og vísar þar í þjóðgarð Snæfellsjökuls.-áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.