Lífið

Finnbogi heillar Þjóðverjana

Í 3000 feta hæð Leikarinn Finnbogi Þorkell Jónsson lék hlutverk í þýskri heimildarmynd um vísindamanninn Alfred Wegener. Í kjölfarið var honum svo boðið að leika í bílaauglýsingu um Austin Mini.
Í 3000 feta hæð Leikarinn Finnbogi Þorkell Jónsson lék hlutverk í þýskri heimildarmynd um vísindamanninn Alfred Wegener. Í kjölfarið var honum svo boðið að leika í bílaauglýsingu um Austin Mini.
„Það hafa einhverjar dyr opnast þarna í Þýskalandi,“ segir leikarinn Finnbogi Þorkell Jónsson, en hann fór með hlutverk í þýskri heimildarmynd um vísindamanninn Alfred Wegener. Myndin verður sýnd í þýska ríkissjónvarpinu von bráðar en leikarinn Stefán Hallur Stefánsson fer einnig með hlutverk í myndinni.

Upphaflega stóð til að myndin yrði öll tekin hér á landi og hófust tökur á Langjökli. Röð óhappa gerði það hins vegar að verkum að hætta þurfti við tökur hér. „Einhverjir töldu að það væru hreinlega álög á þessu verkefni. Það kom mjög slæmt veður, bílarnir tóku að bila og einhverjir þurftu að leggjast inn á sjúkrahús vegna bráðra veikinda, svo það var bara ákveðið að pakka saman og færa tökurnar upp í Alpana,“ segir Finnbogi, sem fékk annað spennandi hlutverk í kjölfarið. „Ég lék í þýskri bílaauglýsingu fyrir Austin Mini. Sú auglýsing var frekar mikið umtöluð og reyndu allmargir íslenskir leikarar að komast í hana því bílaauglýsingar eru oft á tíðum mjög vel borgaðar,“ segir Finnbogi í léttum dúr.

En er Finnbogi þá á góðri leið með að hasla sér völl í Þýskalandi? „Þetta er einmitt frekar skrítið. Ég hef ekki gert neitt rosalega mikið hér heima, en það virðist vera eins og þýskir leikstjórar séu mikið að pæla í mér þessa dagana. Ég er komin með sambönd og veit að menn eru eitthvað að velta fyrir sér hlutunum þarna úti,“ segir Finnbogi. „Ég hlýt að vera meira „inn“ hjá þýsku leikstjórunum en þeim íslensku.“- ka






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.