Lífið

Vibskov og Mundi til Seattle

Ilmur Dögg Gísladóttir, verkefnastjóri Norræna tískutvíæringsins sem haldinn er í Seattle í haust.
Ilmur Dögg Gísladóttir, verkefnastjóri Norræna tískutvíæringsins sem haldinn er í Seattle í haust. Mynd/Pjetur
Norræni tískutvíæringurinn verður haldinn í annað sinn í Seattle þann 30. september og stendur hann yfir til 13. nóvember. Norræna húsið er stofnandi tvíæringsins en listakonan Hrafnhildur Arnardóttir sinnir starfi sýningastjóra í ár.

Að sögn Ilmar Daggar Gísladóttur, verkefnastjóra Norræna tískutvíæringsins, er markmið viðburðarins að kynna norræna hönnun fyrir umheiminum.

„Tvíæringurinn er hugsaður eins og myndlistarsýning og var það sýningarstjórinn, Hrafnhildur Arnardóttir, sem sá um að velja inn þátttakendur. Valið endurspeglar hennar sýn á norræna tísku og hönnun í dag," útskýrir Ilmur Dögg og bætir við: „List Hrafnhildar er mitt á milli þess að vera tíska og listaverk og þess vegna er sérstaklega gaman að hafa fengið hana til liðs við okkur." Hrafnhildur er betur þekkt sem Shoplifter og vinnur mikið með hár og skapaði meðal annars hárskúlptúrinn sem Björk bar á plötuumslagi Medullu.

Fjöldi norrænna hönnuða tekur þátt í viðburðinum og þeirra á meðal eru Mundi, Hildur Yeoman, Aftur, Aurum, Kría Jewelry, Vík Prjónsdóttir, Steinunn, danski hönnuðurinn Henrik Vibskov, hin sænska Sandra Backlund og finnska tvíeykið Ivana Helsinki. Ilmur Dögg segist mjög spennt fyrir tvíæringnum enda sé þetta stærsta sýning á norrænni hönnun sem haldin er í Bandaríkjunum.

„Þetta er alveg ótrúlega spennandi verkefni og frábært tækifæri fyrir litlar þjóðir til að blómstra. Svo skemmir ekki fyrir að við erum með stórfenglegan hóp hönnuða hérna á sýningunni." - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.