Lífið

Varast íslenska hugsunarháttinn

Ástrós Gunnarsdóttir.
Ástrós Gunnarsdóttir. Fréttablaðið/Stefán
Ég hef lengi gælt við drauminn um að opna Pilates-stúdíó utan landsteinanna og nú hefur ævintýrið ræst," segir dansarinn og Pilates-kennarinn Ástrós Gunnarsdóttir, sem í janúar opnaði Pilates Centre Brussel, sem er eitt sinnar tegundar í sjálfri höfuðborg Evrópu.

„Mig langaði að hrista upp í Brussel með því að bjóða upp á albestu líkamsrækt sem völ er á – altsvo, ef hún er rétt kennd. Hér eru alls kyns líkamsræktarstöðvar sem segjast kenna Pilates en kenna í raun bara drasl sem á lítið skylt við hina upprunalegu tækni," segir Ástrós. Hún býr að því að vera eini Pilates-kennarinn í Brussel sem lærði hjá Romönu Kryzanovsku, arftaka hinnar sönnu Pilates-tækni sem Jósep Pilates arfleiddi hana formlega að eftir að hafa unnið með henni í áratugi, en Romana er eini lifandi einstaklingurinn sem vann með Jósep Pilates sjálfum.

„Pilates er ekki nærri eins þekkt í Evrópu og það er í Bandaríkjunum. Ég valdi Brussel því mig langaði að opna alvöru Pilates-stúdíó þar sem ekkert slíkt væri fyrir hendi og þar sem grundvöllur væri fyrir að kenna fólki Pilates eins og það er rétt. Þar fyrir utan langaði okkur Þorfinn að flytja til Evrópu og stúdíóleysið hér réði úrslitum," segir Ástrós og vísar í sinn heittelskaða Þorfinn Ómarsson, sem rekur með henni fyrirtækið ytra.

Stúdíó Ástrósar er í Evrópuhverfinu svokallaða, mitt í hjarta Brussel, en í hverfinu eru fleiri skrifstofumenn en tölu verður á komið. Segir Ástrós að þeim veiti ekki af að skreppa í Pilates-tíma, hvort heldur sem er fyrir eða eftir vinnu, eða í hádegispásu sinni.

„Það var ágætis ákvörðun að velja þetta hverfi og orðsporið breiðist hratt út. Ég hef gaman af fjölbreytileika mannflórunnar sem sækir tíma hjá mér, en ekki síst því hversu karlar eru duglegir að mæta. Heima á Íslandi hefur Pilates fengið á sig kvennastimpil, þrátt fyrir að vera hannað af karlmanni og vera ekki síður góð líkamsrækt fyrir þá," segir Ástrós, alsæl með viðtökurnar og tilveruna í Brussel.

„Hingað koma margir viðskiptamenn í jakkafötum, með vandamál í baki og hálsi, og þá kemur þeim vel að gera Pilates," segir Ástrós. Samkvæmt nýjustu talningu sameinast Pilates-iðkendur frá fimmtán þjóðum í Pilates Centre Brussel, sem starfar eftir þeirri hugmyndafræði Pilates að maður sem hafi þjálfað líkama sinn til fullkomins samræmis og þroskað heilbrigðan huga skili daglegum störfum sínum fljótt og vel, af ungæðislegum lífsþrótti og gleði.

„Okkur líður afskaplega vel hérna og borgin er þægileg. Hana má auðveldlega ganga rösklega enda á milli og maður fær aldrei leið á fjölþjóðlegum menningarheimi hennar. Þá er stutt í allar áttir héðan, létt að taka lest til Parísar, Lundúna eða annarra borga í Evrópu, stutt á skíðasvæði og strönd," segir Ástrós, sem tjaldar ei til einnar nætur í Brussel.

„Það er auðvitað heilmikið mál að opna svona stúdíó, en viðskiptin ganga framar björtustu vonum. Með tíð og tíma langar mig að færa út kvíarnar en ég varast að taka íslenska hugsunarháttinn á þetta og sé til hvernig gengur eftir árið."

thordis@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.