Lífið

Margeir velur tónlistina í háloftunum

Margeir ásamt syni sínum Krumma Arnari. Plötusnúðurinn er orðinn nokkurs konar tónlistarstjóri í flugvélum Icelandair. 
fréttablaðið/vilhelm
Margeir ásamt syni sínum Krumma Arnari. Plötusnúðurinn er orðinn nokkurs konar tónlistarstjóri í flugvélum Icelandair. fréttablaðið/vilhelm
„Þetta er frábær áskorun,“ segir plötusnúðurinn Margeir Ingólfsson, sem er orðinn nokkurs konar tónlistarstjóri í flugvélum Icelandair.

Margeir sér um að velja tónlistina sem hægt er að hlusta á í vélunum og sérstök áhersla verður lögð á allt það ferskasta sem hann telur vera í gangi hverju sinni í tónlistarheiminum. Íslenskri tónlist og tónlist sem tengist Iceland Airwaves-hátíðinni verður sömuleiðis gerð góð skil.

„Maður hefur flogið töluvert og yfirleitt er þetta ansi skrautleg lyftutónlist sem heyrist almennt í flugvélum,“ segir Margeir. „Stundum, ef menn ætla að gera öllum til geðs, hef ég það á tilfinningunni að það virki ekki fyrir neinn. Ég held að fólk sé komið með nóg af lyftutónlist,“ segir hann. „Það er góð pæling að geta sest upp í vélina, sett á sig heyrnartólin og látið músíkina koma sér á óvart. Ég mun aldrei geta gert öllum til hæfis en maður gerir sitt besta.“

Ein nýjunganna sem Margeir býður upp á er að leyfa farþegum að hlusta á plötur sem eiga enn eftir að koma út. Sú fyrsta í röðinni er nýjasta plata GusGus, Arabian Horse, sem er væntanleg í búðir eftir rúman mánuð. Engin áhætta fylgir þessari nýbreytni því ekki er hægt að stela tónlist úr flugvélum, líkt og hægt er á netinu. „Við vitum ekki af neinu flugfélagi sem hefur gert þetta,“ segir Margeir.

Biggi Veira í GusGus er ánægður með tilraunina. „Ég ferðast mikið sjálfur og fór að hugsa að ef það væru nýjar og spennandi plötur að hlusta á í vélinni væri þetta áhugaverður kostur fyrir mig,“ segir hann. „Mér fannst sniðugt að opna á þennan möguleika.“- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.