Lífið

Gefa út nýja veftímaritið Bast Magazine

Hafrún Alda, Sif og Íris Dögg standa á bak við vefritið Bast Magazine. Mynd/Íris Dögg
Hafrún Alda, Sif og Íris Dögg standa á bak við vefritið Bast Magazine. Mynd/Íris Dögg
Nýtt vefrit, Bast Magazine, fór í loftið um helgina. Á bak við ritið standa Hafrún Alda Karlsdóttir, Íris Dögg Einarsdóttir og Sif Kröyer.

Að sögn Sifjar, ritstjóra vefritsins, höfðu allar stúlkurnar gengið með þessa hugmynd í maganum í nokkra stund en hjólin fóru fyrst að snúast þegar þær hlutu peningastyrk frá Dansk Islandsk Fond.

„Styrkurinn gerði það að verkum að við gátum leigt atvinnuhúsnæði og komið undir okkur fótunum. Þetta gerði það einnig að verkum að við fengum aukið sjálfstraust því styrkveitingin sýndi að fleiri höfðu trú á þessu verkefni með okkur,“ útskýrir hún.

Meðal þess efnis sem fjallað verður um í Bast Magazine er tíska, tónlist, menning, hönnun og kvikmyndir og verður megináhersla lögð á viðburði sem fram fara á Íslandi og í Danmörku. Auk þess að gefa út vefritið annan hvern mánuð munu stúlkurnar halda úti bloggi og birta vídeóklippur á Bast-TV. Sif segir mikla vinnu liggja að baki fyrstu útgáfunni og hlakkar mikið til að sjá viðbrögð fólks.

„Við erum allar í námi og með fjölskyldur þannig að það liggur mikil en skemmtileg vinna að baki þessu. Við höfum þó verið svo heppnar að fá utanaðkomandi aðstoð með skrifin og fólk hefur almennt verið mjög hjálpsamt,“ segir Sif og þvertekur fyrir að þær muni slá slöku við eftir útgáfu fyrsta tölublaðs. „Vinnan heldur áfram. Við erum ekkert að fara að skála í kokteilum og slappa af heldur erum strax farnar að vinna efni í næsta tölublað.“

Hægt er að nálgast fyrsta tölublað Bast Magazine á slóðinni bast-magazine.com. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.