Lífið

Ásdís Rán selur kjóla og snyrtivörur í Búlgaríu

Sala á förðunar- og kjólalínum Ásdísar Ránar hefjast bráðlega í stórum verslunum í Búlgaríu.
Fréttablaðið/valli
Sala á förðunar- og kjólalínum Ásdísar Ránar hefjast bráðlega í stórum verslunum í Búlgaríu. Fréttablaðið/valli
„Þetta er alveg frábært. Ég bjóst ekki við að ná að negla þetta svona vel,“ segir fyrirsætan og athafnakonan Ásdís Rán Gunnarsdóttir.

Ásdís hefur samið við búlgörsku verslanakeðjurnar Piccadilly og Hot Spot um sölu á Icequeen-snyrtivöru- og kjólalínum sínum. Ásdís var stödd í Búlgaríu þegar Fréttablaðið náð í hana og var að vonum kampakát með samningana. „Ég er búin að vera hérna í tvær vikur að ganga frá framleiðslu á Icequeen-kjólunum. Mér tókst í leiðinni að semja við tvær af stærstu búðunum,“ segir hún og bætir við að ferlið hafi ekki verið auðvelt. „Það tók mig marga mánuði að ná sambandi við þetta fólk. Búlgaría er svo hræðilega stór, þetta er ekkert grín. Ég bjóst ekki við að þetta myndi ganga upp, en ég er vön að reyna allt.“

Ásdís segir Piccadilly-verslanirnar vera svipaðar Hagkaupsverslunum íslensku, en snyrtivörurnar verða seldar þar. Kjólalínan verður seld í Hot Spot, sem er tískuverslanakeðja með um 60 verslanir í Búlgaríu.

„Að vísu byrja vörurnar í stærstu búðunum og svo byggist þetta smám saman upp,“ segir Ásdís og bætir við að sala á kjólunum hefjist eftir rúman mánuð. Stuttu seinna hefst sala á Íslandi. „Svo er spurning hvort fólk kaupir vörurnar. Ég hef engar áhyggjur af því. Stelpur um allan heim eru eins inn við beinið – við viljum allar vera sætar og kaupa farða og fín föt.“

Og verðurðu moldrík af þessu? „Þegar ég verð búin að víkka veldið út til Rúmeníu og Tyrklands þá kaupi ég mér risahús á Íslandi,“ segir Ásdís að lokum og hlær.- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.