Lífið

Ætla að gera hasarmynd úr Leynilöggustiklunni

„Ég er mjög spenntur og hlakka mikið til að skrifa þetta – mig hefur alltaf dreymt um að gera bíómynd,“ segir sjónvarpsmaðurinn Auðunn Blöndal.

Auddi er byrjaður að skrifa handrit að hasarmyndinni Leynilögga ásamt Agli Einarssyni, Hannesi Þór Halldórssyni og Huga Halldórssyni. Stikla við myndina sló í gegn á dögunum, en hún var framleidd fyrir sérstaka stiklukeppni Audda og Sveppa sem fór fram í þætti þeirra á Stöð 2. Verkefnið er á byrjunarstigi en Sena hyggst koma að því sem meðframleiðandi.

„Við erum komnir með þráð í gegnum myndina – um hvað hún á að fjalla,“ segir Auddi. „Fólk sá náttúrlega mikið af því í treilernum. Við verðum samt að passa okkur á því að það verði ekki allt gefið upp í honum.“

Auddi og félagar stefna að því að handritið verði tilbúið í sumar, en þá fer lengra ferli í gang; klára þarf fjármögnun og ganga frá öðrum lausum endum. Ef allt gengur upp yrði myndin frumsýnd á næsta ári.

Fjölmargir þekktir leikarar komu fram í stiklunni og Auddi segir þá vera spennta fyrir því að koma fram í kvikmyndinni. Á meðal þeirra sem komu fram í stiklunni eru Gísli Örn, Björn Hlynur, Hjalti Úrsus, Steindi Jr., Ingvar E., Heiðar Austmann og Íris Björk, kærasta Audda og fyrrverandi ungfrú Reykjavík, Hörður Magnússon, Hemmi Gunn og Egill Einarsson, sem leikur elskhuga Audda. „Það eru allir tilbúnir að leika þessi hlutverk í bíómynd. Mönnum finnst það mjög fyndið,“ segir Auddi.

Miðað við stikluna verður myndin lögguhasar en augljóst er að grínið verður aldrei langt undan. „Við viljum að hún svínlúkki þannig að það séu flott hasaratriði, en aldrei stutt í grínið,“ segir Auddi, sem bjóst aldrei við viðbrögðunum sem stiklan fékk, en þau urðu til þess að handritsskrif hófust. „Það ræddu margir um að þeir vildu sjá treilerinn sem bíómynd.“atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.